Breskir vísindamenn, sem síðdegis sögðu að hægt yrði að opna lofthelgi Bretlands á morgun, sögðu í kvöld að nýtt öskuský væri á leið til Bretlandseyja frá Eyjafjallajökli. Samt er vonast til að hægt verði að opna bresku lofthelgina að minnsta kosti að hluta á morgun.
Breska flugumferðarstjórnarstofnunin, NATS, sem stýrir umferð í breskri lofthelgi, sagði að nýtt öskuský væri á leið suður og austur frá Íslandi og því hefði útlitið versnað á sumum svæðum frá því í dag. Hins vegar yrðu skoskir flugvellir eftir sem áður opnaðir klukkan 7 í fyrramálið og hugsanlega yrði stærra svæði opnað þegar liði á daginn, þó ekki stóru flugvellirnir við Lundúni.
Staðan kynni þó að breytast í nótt .