Öskufall í Reykjavík á fimmtudag?

Gríðarlegt öskufall er undir Eyjafjöllum í dag.
Gríðarlegt öskufall er undir Eyjafjöllum í dag. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ákveðið hefur verið að ef komi til öskufalls í Reykjavík frá Eyjafjallajökli skuli foreldrar styðjast við áætlun um viðbrögð þegar röskun verður á skólastarfi vegna óveðurs. Miðað við spá Veðurstofu um öskufall gæti aska falli á höfuðborgarsvæðinu á fimmtudag og föstudag.

Almannavarnir meta ástandið þannig að þörf sé á viðbrögðum ef öskufall verður á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt reglum sem gefnar voru út um röskun á skólastarfi vegna óveðurs er það á ábyrgð foreldra að taka ákvörðun um hvort senda eigi börn í skólann þegar veður er vont.

 Viðbúnaðarstigin eru tvö. Í reglum um fyrra viðbúnaðarstig segir: „ Röskun verður á skólastarfi vegna erfiðleika starfsfólks og nemenda við að komast til skóla – foreldrar fylgi börnum í skólann.

VIÐBÚNAÐARSTIG 2: Skólahald fellur niður.“

Spá Veðurstofu um öskufall

Mánudagur: Norðan 8-13 m/s og gosaskan stefnir því til suðurs frá gosstöðinni. Öskufall eða fjúkandi aska því einkum undir Eyjafjallajökli, ósennilegt að aska nái til Vestmannaeyja. Léttskýjað að mestu og ágætt útsýni til gosmakkar.

Þriðjudagur: Fremur hægur norðlægur vindur um morguninn og bjartviðri, en snýst smám saman til suðlægrar áttar síðdegis, þykknar upp og fer að rigna um kvöldið. Búast má við að gosaska berst ekki langt frá gosstöðinni.

Miðvikudagur: Hæg norðlæg átt og skýjað með köflum. Búast má helst við öskufalli undir Eyjafjöllum, og þá einkum mjög nærri eldstöðinni.

Fimmtudagur og föstudagur: Útlit fyrir fremur hæga austlæga átt og rigningu. Gosmökkur beinist til vesturs, en gosaska berst líklega ekki langt frá eldstöðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert