Samkvæmt ársreikningi Garðabæjar fyrir árið 2009 var rekstrarafgangur ársins 432 milljónir króna. Skuldir og skuldbindingar nema samtals 6.450 milljónum. Greiddar voru niður skuldir um 127 milljónir umfram nýjar lántökur.
Rekstrartekjur ársins nema samtals 5.501 millj. kr. og voru um 293 millj. hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Rekstrargjöld námu 4.876 millj. eða 22 millj. umfram fjárhagsáætlun. Fjármagnsgjöld námu um 192 millj. króna eða 120 millj. minna en áætlað var.
„Rekstargjöld hafa lækkað um 50 millj. kr. frá árinu 2008 þrátt fyrir verulegar verðlagshækkanir milli ára, sem sýnir að þær aðhalds- og hagræðingaraðgerðir sem bæjarstjórn samþykkti við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2009 hafa skilað sér eins og til stóð. Til fræðslumála sem er langstærsti málaflokkurinn var varið 2.610 millj. sem eru 54,3% af tekjum bæjarins. Áætlun gerði ráð fyrir 2.589 millj. eða 21 millj. lægri upphæð,“ segir í fréttatilkynningu frá Garðabæ.
Fjárfestingar námu samtals um 1.295 millj. Þar af var kostnaður við síðari áfanga Sjálandsskóla 680 millj. og kostnaður við nýtt fimleikahús 529 millj.
Handbært fé í árslok nam 584 millj. og veltufé frá rekstri nam 1.019 millj. Allar kennitölur bera vott um afar traustan rekstur en veltufé frá rekstri er 18,5% í hlutfalli við rekstrartekjur, veltufjárhlutfall er 1,54 og eiginfjárhlutfall 0,56.
Íbúar Garðabæjar voru 10.587 í árslok 2009 sem er 2,2% fjölgun á árinu eða sem nemur 229 nýjum Garðbæingum.
Við gerð ársreikningsins hefur Garðabær gert breytingar á reikningsskilaaðferðum í samræmi við álit reikningsskila- og upplýsinganefndar sem starfar samkvæmt reglum um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga. Samkvæmt hinum nýju reglum eru færðar til eignar fasteignir og önnur mannvirki sem sveitarfélagið leigir samkvæmt leigusamningum til lengri tíma en þriggja ára og skuldbinding vegna sömu samninga færð meðal langtímaskulda. Þá eru færðar til eignar lóðir og lendur sem sveitarfélagið hefur leigutekjur af.
Helsta niðurstaða efnahagsreiknings er að fastafjármunir nema 12.399 millj. og eignir samtals 14.114 millj. en skuldir og skuldbindingar nema samtals 6.450 millj. að meðtöldum leiguskuldum skv. nýjum reikningsskilaaðferðum sem nema 1.621 millj. og lífeyrisskuldbindingu. Greiddar voru niður skuldir um 127 millj. umfram nýjar lántökur.