„Skyggnið er einn metri. Ástandið er mjög slæmt,“ segir Magnús Ragnarsson lögreglumaður á Hvolsvelli, en gífurlegt öskufall er núna undir Eyjafjöllum. Ekki er hægt að hleypa umferð á veginn yfir Markarfljót þó að hann sé tilbúinn.
Spáð er norðaustanátt í dag og því má búast við að þetta ástand vari fram eftir degi.
Vegagerðin kláraði að gera við veginn yfir Markarfljót kl. 19 í gærkvöldi. Ákveðið var hins vegar að hleypa ekki umferð á veginn vegna óvissu um hvernig mál myndu þróast í nótt. Í morgun var vegurinn undir Eyjafjöllum ófær vegna öskufalls.
Flutningabílar hafa beðið eftir að komast yfir veginn, en þeir geta ekki farið yfir gömlu brúna yfir Markarfljót. Mjólkurbíll ætti að fara í dag og sækja mjólk til bænda. Ekki mun þó skapast neitt vandræðaástand þó að það dragist til morguns.