Samráðshópur stjórnvalda og hagsmunaaðila í ferðaþjónustunni kom aftur saman til fundar í dag til að ræða samstarf og aðgerðir vegna umfjöllunar erlendra fjölmiðla um eldgosið. Einar Karl Haraldsson upplýsingafulltrúi segir að tekist hafi að ná vel utan um verkefnið og umfjöllunin sé komin í meira jafnvægi. Fer þetta starf hópsins fram í nánu samstarfi við Almannavarnir og fulltrúa þeirra.
„Það hefur tekist vel að koma réttum upplýsingum til skila til fjölmiðlanna. Við höfum verið í góðu sambandi við þá erlendu blaðamenn sem eru staddir hér á landi og fréttaflutningurinn hefur verið í meira jafnvægi en fyrstu dagana eftir gosið. Núna eru sýndar aðrar hliðar á íslensku þjóðlífi en í upphafi,“ segir Einar Karl.
Hann segir samráðshópinn hafa verið sammála um nauðsyn þess að halda þessu starfi áfram. Útflutningsráði var m.a. falið að útvega almannatengslastofu með góð tengsl við slíkar stofur erlendis. Verið er að leggja drög að kynningaráætlun sem sett yrði af stað þegar betur er vitað með útlit og horfur varðandi eldgosið.
Að sögn Einars Karls verður lögð áhersla á samhæfa allar upplýsingar sem frá íslenskum stjórnvöldum fara í tengslum við eldgosið. Fara þær upplýsingar í gegnum utanríkisráðuneytið, eftir að hafa borið þær undir Almannavarnir.
Sett hefur verið upp miðstöð fyrir erlenda fréttamenn í stjórnstöð Almannavarna í Skógarhlíð og einnig er komin aðstaða fyrir erlenda fréttamenn á Hvolsvelli, en fjöldi þeirra er kominn til landsins vegna eldgossins.
Samráðshópurinn kom fyrst saman á laugardag og mun hittast reglulega eftir þörfum hverju sinni. Í honum eiga sæti fulltrúar iðnaðarráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins, Almannavarna, Ferðamálastofu, Ferðamálaráðs, Útflutningsráðs, Reykjavíkurborgar og Samtaka ferðaþjónustunnar, auk fulltrúa Icelandair og Iceland Express.
Ferðamálastofa og Höfuðborgarstofa hafa þegar sett í gang verkefni til að koma á framfæri upplýsingum í gegnum samfélagslega miðla s.s. á Facebook og víðar, auk þess sem Höfuðborgarstofa hefur boðið þeim ferðalöngum sem eru strandaglópar á Íslandi upp á frítt gestakort Reykjavíkur sem veitir þeim ókeypis aðgang á söfn, í sund og strætó og fleira.