„Verstu morgnar sem ég hef lifað“

Eldingar í gosmekkinum frá Eyjafjallajökli.
Eldingar í gosmekkinum frá Eyjafjallajökli. Árni Sæberg

„Tveir ömurlegust morgnar í mínu lífi voru þegar Hekla byrjaði að gjósa og svo núna þegar gosið byrjaði í Eyjafjallajökli,“ segir Þórður Tómasson, safnvörður í Skógum undir Eyjafjöllum. Mikið öskufall er undir Eyjafjöllum.

„Það er mjög dimmt og ömurlegt út að líta. Vindáttin er þannig að þetta kemur beint yfir okkur frá eldstöðinni,“ sagði Þórður.  Spá um öskufall bendir til að öskufall verði undir Eyjafjöllum í allan dag.

„Það er afskaplega dapurt að vera í þessu. Það er ekki hægt að segja annað. Þó að taugakerfið sé í sæmilegu lagi þá líður engum vel undir þessu og enginn veit um áframhaldið.“

Þórður sagði að það væri ekki gott aðgengi að húsum á byggðasafninu í Skógum. Ráðast þyrfti í mikla hreinsun áður en hægt yrði að hleypa fólki að húsunum. „Ég hef alltaf verið bjartsýnn og trúi að það rætist úr þessu. Maður glatar því ekki,“ sagði Þórður þegar hann var spurður um hvernig honum litist á sumarið, en safnið á Skógum er eitt bestsótta safn á landinu.

Þórður sagði að lítil aska hefði borist inn í húsin. Vel hefði verið gegnið frá hurðum og gluggum. 

Þórður verður 89 ára gamall síðar í þessum mánuði. Hann man því vel eftir Heklugosinu árið 1947. 

„Ég man ákaflega vel eftir Heklugosinu 1947. Mitt fyrsta verk þegar ég vaknaði kl. 6:30 um morguninn var að stökkva út í hagann og koma hrossum í hús. Þá átti hver einasti bóndi undir Eyjafjöllum hús yfir hrossin sín og þótti sjálfsagt að hýsa þau yfir veturinn. Það stóð heima að þegar ég kom heim að bænum þá byrjaði askan að falla og það varð svarta myrkur. Öskufallið stóð hins vegar bara í um það bil einn klukkutíma. Við fengum ekki öskufall eftir það. Askan sem féll var stórgerður vikur og ekkert lík því sem nú er að falla.“

Öskufallið undir Eyjafjöllum vegna gossins í Eyjafjallajökli hefur staðið með hléum í nokkra sólarhringa.

Þórður Tómasson safnvörður í Skógum.
Þórður Tómasson safnvörður í Skógum. Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert