Aska gæti náð að Eyjum á morgun

Fólki á öskufallssvæðum er ráðlagt að nota grímur.
Fólki á öskufallssvæðum er ráðlagt að nota grímur. Árni Sæberg

Á morgun, miðvikudaginn 21. apríl, má helst búast við öskufalli undir Eyjafjöllum, suður og suðaustur af eldstöðinni. Einnig suðvestur af eldstöðinni annað kvöld, jafnvel að Vestmannaeyjum. Óverulegar líkur á öskufalli suðvestanlands, samkvæmt tilkynningu frá sóttvarnalækni og almannavörnum.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er gert ráð fyrir norðvestlægri átt, 3–8 m/s um morguninn en norðaustanátt 5–8 m/s síðdegis og dálítlu éli.

„Sóttvarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra mæla með grímunotkun utanhúss þar sem öskufall er sýnilegt. Fyrri hluta dagsins verður líklega þörf fyrir grímur á Skógum, Sólheimasandi, í Mýrdalnum og í Vík í Mýrdal og á Mýrdalssandi.

Þegar líður á daginn verður að líkindum þörf á grímum í Ásólfsskála, í Stóradal, á Seljalandi og hugsanlega í Vestamannaeyjum. Grímur eru afhentar á heilsugæslustöðinni á Hvolsvelli, í Vík í Mýrdal og í Vestmannaeyjum fyrir þá sem eru staðsettir á þessum svæðum. 

Engin þörf er fyrir grímunotkun á höfuðborgarsvæðinu eða öðrum svæðum þar sem ekki er talin hætta á öskufalli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert