Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins kom saman í dag til að fjalla um tímasetningu sérstaks landsfundar í sumar þar sem kosinn verður nýr varaformaður í stað Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sem sagði nýlega af sér. Að ósk formanns flokksins, Bjarna Benediktssonar, verður einnig kosið um formannsembættið.
Landsfundurinn verður haldinn seinni partinn í júní. Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri flokksins, segir að hann muni í samráði við formanninn ákveða nánari tímasetningu síðar. Ekki er skylda að kjósa um formannsembættið en Bjarni var kjörinn í fyrra. Hann hefur á hinn bóginn sætt gagnrýni vegna fjármála sinna og hefur því ákveðið að fara fram á nýtt umboð.
Ekki er um neinn framboðsfrest að ræða fyrir landsfundinn þar sem allir flokksmenn eru í kjöri.