Miklar drunur og dynkir heyrast nú frá Eyjafjallajökli í Húsadal í Þórsmörk. Einnig heyrðu blaðamenn Morgunblaðsins drunur þar sem þeir voru staddir við Seljavelli undir Eyjafjöllum. Ekkert hefur enn borið á öskufalli frá Eyjafjallajökli í Húsadal, að sögn Ragnheiðar Hauksdóttur staðarhaldara.
„Það eru óskapa drunur í þessu núna, mjög miklar,“ sagði Ragnheiður. „Maður hefur á tilfinningunni að það hristist undir manni. En ég veit ekki hvort það er einhver tilfinning eða veruleiki.“ Hún sagði að það taki undir í fjöllunum og að þeim finnist drunurnar hafa ágerst eftir því sem liðið hefur á daginn.
Ragnheiður sagði að engin aska hafi fallið úr eldgosinu í Eyjafjallajökli í Húsadal til þessa. Þau settu út disk en ekki ein einasta arða kom á hann. Einu sinni kom smávegis aska þar meðan gaus í Fimmvörðuhálsi. Nú spáir breyttri vindátt og aska gæti borist yfir Þórsmörk.
„Maður biður og vonar að Guð gefi að þessi gróðurvin hérna sleppi. Hún hefur gert það frá landnámi. Það er eins og það sé eitthvert uppstreymi hér á milli fjallanna. Hvort hún gerir það núna veit ég ekki, en maður vonar,“ sagði Ragnheiður.
„Það er sama sem logn hérna,“ sagði Ragnheiður. Hún sagði að leir frá jökulhlaupinu við Gígjökul sé aðeins farinn að ýfast upp á Markarfljótsaurunum. Í dag sást illa til Þórólfsfells vegna móðunnar.
Vegurinn í Þórsmörk er nú lokaður allri umferð. Ragnheiður sagði að þau í Húsadal komist sinna ferða á stórum trukki yfir Markarfljótið. Engir ferðamenn koma nú í Húsadal. Þar er unnið að endurbótum og vonast til að þeim ljúki nú í vikunni, að sögn Ragnheiðar.
Samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofunnar hafa dynkir heyrst og fundist víða undir Eyjafjöllum og austur af þeim. „Þarna er mjög seig kvika sem gerir það að verkum að gassprengingar verða mun öflugri heldur en þegar um þunna kviku er að ræða, eins og var á Fimmvörðuhálsi. Sprengingarnar mynda þessar höggbylgjur sem heyrast og finnast í margra kílómetra fjarlægð,“ segir á vef Veðurstofunnar.