Engin fyrirheit gefin

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við afgreiðslu AGS lánsins fyrir helgi ganga skemur en yfirlýsingin frá nóvember 2008. Hann hafnar gagnrýni Bjarna Benediktssonar á yfirlýsinguna og biður hann að lesa rannsóknarskýrsluna og rifja upp hvernig Icesave sé tilkomið.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar harðlega í gær og sagði hana ganga mun lengra en fyrri yfirlýsing gerði í viðurkenningu á skuldbindingu Íslands.

Málið kom til tals í fyrirspurnatíma á Alþingi í dag og gagnrýndi Bjarni þar, að yfirlýsingin hefði verið gefin út án samráðs við stjórnarandstöðu. Steingrímur sagði hins vegar, að yfirlýsingin væri í samræmi við umboð sem viðræðunefnd stjórnvalda hafði til viðræðna við Breta og Hollendinga í febrúar sl. og formaður þeirrar nefndar hefði lagt lokahönd á orðalag yfirlýsingarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert