Flugumferð í Evrópu og til fleiri heimsálfa var áfram mjög takmörkuð í gær vegna eldgossins í Eyjafjallajökli, sjötta daginn í röð. Askan úr gosinu hélt áfram að dreifa úr sér og meira í vesturátt yfir Norður-Atlantshafið til Kanada, Nýfundnalands og Grænlands.
Margir helstu flugvellir Evrópu voru lokaðir í gær en þó opnaðist fyrir umferð í Noregi og Svíþjóð og fleiri löndum. Útlit er fyrir að enn fleiri flugvellir opnist í dag, m.a. á Bretlandseyjum og á meginlandi Evrópu.
Flugfélögin halda áfram að tapa stórum fjárhæðum, eða um 25 milljörðum króna á dag, en í gær féllu niður um 20 þúsund flugferðir. Hafði það áhrif á ferðir um sjö milljóna manna. Vegna þessa taps hafa félög á borð við British Airways farið fram á skaðabætur frá ESB og breskum stjórnvöldum fyrir ófyrirséð tjón, með vísan til slíkra fordæma í kjölfar árásanna 11. september 2001 en þá varð mikil röskum á flugumferð.
Mikil umræða hefur einnig verið uppi meðal flugfélaga um að endurskoða þá aðferðafræði sem lokað hefur fyrir flugumferð vegna öskufalls.
Sjá nánar um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.