„Maður heyrði bara hvernig eldfjallið hamaðist,“ segir Vilhjálmur Eyjólfsson á Hnausum í Meðallandi sem heyrði miklar drunur og sprengingar frá Eyjafjallajökli í morgun. Vilhjálmur segist aldrei hafa heyrt nokkuð í líkingu við þetta, en hann er búsettur um 70 km austur af eldstöðinni.
„Það virðist vera óhemjukraftur í þessu gosi. Það er ekki hægt að halda annað,“ segir Vilhjálmur.
Vilhjálmur segir í samtali við mbl.is að hann hafi í fyrstu haldið að um ofheyrnir hafi verið um að ræða. Hann hafði strax samband við nágranna sína í sveitinni sem allir könnuðust við að hafa heyrt drunurnar. Hann hafði einnig samband við Veðurstofu Íslands til að athuga hvort Katla væri farin að láta í sér heyra, en svo var ekki. „Hún er hin spakasta, hrærist ekki einu sinni,“ segir Vilhjálmur um Kötlu.
Að sögn Vilhjálms stóð hávaðinn og drunurnar yfir frá því fyrir klukkan 10 í morgun og fram yfir klukkan eitt. Þessa stundina heyrist hins vegar minna í eldfjallinu.
Aðspurður segist hann aldrei hafa heyrt nokkuð í líkingu við þennan hávaða. Þetta hafi minnt á hávaða frá þrýstiloftsflugvél. „Ég hef aldrei heyrt þetta áður,“ segir Vilhjálmur og bætir við að menn hafi heyrt hávaðann jafnt innan- sem utandyra. Einnig hafi frést af því að íbúar á Kirkjubæjarklaustri hafi heyrt drunurnar.
Vilhjálmur segir að aska hafi fallið til jarðar hjá sér og nágrönnum sínum, en þó ekki eins mikið og hjá bændum undir Eyjafjöllum. „Hann fór ótrúlega hátt upp gosmökkurinn á föstudagskvöldið. Á laugardagskvöldið var eins og risaköttur sæti þarna á eldfjallinu og skottið náði langt til suðausturs.“