Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segist skilja áhyggjur ferðaþjónustufyrirtækja vegna ummæla hans um miklar afleiðingar Kötlugoss. Það væri hins vegar óábyrgt að draga fjöður yfir hættuna á gosi.
Frá þessu var greint í kvöldfréttum Útvarps.
„Ég hélt nú satt að segja að við hefðum lært það, af reynslu síðustu ára, að það þjónar ekki hagsmunum okkar sem þjóðar, eða samvinnu okkar við önnur ríki, að ekki megi ræða um hugsanlegar hættur, heldur eigum við að halda bara slíku fyrir okkur sjálf,“ sagði Ólafur Ragnar í samtali við RÚV.