Öskufok á Markarfljótsaurum

Gosmökkurinn séður frá Múlakoti í Fljótshlíð í morgun.
Gosmökkurinn séður frá Múlakoti í Fljótshlíð í morgun. mbl.is/RAX

Aðeins er að draga úr gosinu að sögn Ómars Ragnarssonar, sem flaug yfir gosstöðvarnar í nótt og í morgun. „Það er samt nóg aska sem kemur þarna upp finnst mér,“ segir Ómar og kveður það vekja sér depurð að sjá hvernig  gosið er búið að fara með bændur á svæðinu.

Hann segir stórskornar sprengingar og höggbylgjur vera stóran þátt í eldgosinu í toppi Eyjafjallajökuls og höggbylgjurnar finnist á stundum vel í loftinu. Hann hafi þó ekki orðið vart við neinar í nótt. Sprengingarnar hafi hins vegar sést vel í ljósaskiptunum í morgun. „Þær sjást best við slíkar aðstæður og í morgun sá maður vel þessar fjórar gerðir af virkni sem eru í gosinu.

Vonir um að glóandi gjóska yrði í einhverju magni í gosinu séu hins vegar ekki að rætast og enn sé öskumyndun mikil. „Nú er svo kominn öskufok niðri á Markarfljótsaurum og það er alveg nýtt. Ég náði mynd af Stóra-Dímon þar sem hún er á kafi í öskumekki og það leggur niður á túnin hjá bændum í Landeyjum,“ segir Ómar. Verið sé að bæta í Mýrdalssand eins og við þekkjum hann. Askan sé hins vegar óhemjuleiðinleg enda mjög fínleg. „Hún verður eins og steypa ef hún blotnar, líkt og gera á í kvöld,“ sagði Ómar sem var á leið í bæinn með myndir sínar.

Gosmökkurinn sést vel á þessari mynd úr vefmyndavél Mílu á …
Gosmökkurinn sést vel á þessari mynd úr vefmyndavél Mílu á Valahnjúk
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert