Riftunarfrestur vegna gjaldþrota lengdur

mbl.is/Kristinn

Alþingi hefur samþykkt breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti. Samkvæmt breytingunni hefur sá frestur sem skiptastjóri hefur til að rifta í málum sem höfðuð eru fyrir árslok 2012 verið lengdur úr tveimur árum í fjögur ár.

Jafnframt skal sex mánaða málshöfðunarfrestur samkvæmt lögunum vera tólf mánuðir fram til ársloka 2012.

Bráðabirgðaákvæði var bætt við 27. kafla laga um gjaldþrotaskipti þess efnis að tímamörk og frestir til að rifta ráðstöfunum þrotamanns skv. 20. kafla laganna skuli á tímabilinu 6. október 2008 til 31. desember 2011 vera fjögur ár, að því er segir í nefndaráliti allsherjarnefndar.

„Þessir tímafrestir eru í flestum tilvikum sex mánuðir en rýmri frestir allt upp í tvö ár geta átt við þegar í hlut eiga þeir sem eru nákomnir þrotamanni. Með riftunarreglunum er þrotabúi gert kleift að ná undir skiptin eignum sem ráðstafað hefur verið í aðdraganda skipta eða leiðrétta mismun milli kröfuhafa og tryggja jafnræði meðal lánardrottna skuldarans. Flestar riftunarreglur eru hlutlægar í þeim skilningi að þrotabúið þarf ekki að sanna að sá sem riftunarkrafa beinist að hafi verið grandsamur um fjárhag skuldara (þrotamanns) á þeim tíma sem riftanleg ráðstöfun fór fram,“ segir í áliti allsherjarnefndar.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, sem nú er orðið að lögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert