„Þetta var pólitísk ákvörðun“

Steingrímur Ari Arason
Steingrímur Ari Arason

„Þetta var póli­tísk ákvörðun að taka upp viðræður við þessa aðila,“ sagði Stein­grím­ur Ari Ara­son í sam­tali við Rás tvö í morg­un um þá ákvörðun að hefja viðræður við Sam­son og S-hóp­inn um sölu á hlut rík­is­ins í Lands­banka og Búnaðarbanka. Stein­grím­ur Ari sagði sig úr einka­væðing­ar­nefnd árið 2002 vegna óánægju með hvernig staðið var að sölu bank­anna.

„Ég lýsti því fyr­ir rann­sókn­ar­nefnd­inni að ég telji 99,9% lík­ur á því að það hefðu verið þeir Hall­dór [Ásgríms­son] og Davíð [Odds­son] sem tóku ákvörðun um að selja bank­ana og hefja viðræður við þessa tvo aðila, S-hóp­inn og Sam­son.“

Stein­grím­ur Ari sagði að kornið sem fyllti mæl­inn hefði verið þegar samþykkt var að fall­ast á kröfu Sam­son um að fá af­slátt af verði Lands­bank­ans vegna þess sem var í af­skrifta­sjóði. Af­slátt­ur­inn nam 700 millj­ón­um.

„Í fyrsta lagi fannst mér óeðli­legt að fara í samn­ingaviðræður um verðið. Það lá al­veg fyr­ir að ef þeir fengju þenn­an af­slátt þá væri þeirra verðtil­boð [Sam­son] orðið lægra held­ur en keppi­naut­anna og svo er hitt, og það gleym­ist stund­um, að ríkið var orðið í raun­inni minni­hluta­eig­andi í Lands­bank­an­um á þess­um tíma. Lands­bank­inn var al­menn­ings­hluta­fé­lag skráð á markaði og ég gat ekki séð að það stæðist al­menn­ar regl­ur að gefa til­tekn­um aðila færi á því að fara inn í bank­ann með þess­um hætti, að kynna sér skuld­ir hverra væru í þess­um af­skrifta­sjóði og kynna sér hvort væri lík­legt að þeir gætu greitt eða ekki.“

Stein­grím­ur Ari sagði að end­ur­skoðend­ur Sam­son hefðu fengið að fara inn í bank­ann og skoða af­skrift­ar­sjóðinn. Þannig hefði ekki verið staðið að mál­um þegar kom að sölu Búnaðarbank­ans.

Stein­grím­ur Ari sagði að hálfu stjórn­valda hefði mik­il áhersla verið lögð á að ljúka söl­unni fyr­ir kosn­ing­arn­ar 2003, en í stjórn­arsátt­mála sagði að ljúka ætti sölu bank­anna á kjör­tíma­bil­inu.

Stein­grím­ur Ari sagði að tals­vert hefði verið rætt um að eign­ar­haldið á bönk­un­um ætti að vera dreift. Einka­væðing­ar­nefnd hefði hins veg­ar ekki rætt málið á þeim nót­um að eign­ar­haldið ætti að vera dreift um alla framtíð, „held­ur að hafa ferlið gegn­sætt, hafið yfir vafa og við töld­um í raun­inni að markaðsaðilar ættu að geta séð um að búa til þá kjöl­festu fyr­ir bank­ana sem tal­in var nauðsyn­leg.“

Stein­grím­ur Ari sagði þessi vinnu­brögð væru hluti af því al­menna virðinga­leysi sem væri hér á landi í um­gengni við sett­ar regl­ur. „Menn viku regl­un­um til hliðar á raun­inni ógegn­sæj­an hátt, þ.e.a.s regl­un­um var ekki bara breytt held­ur voru þær sett­ar til hliðar. Þetta gerðist inn­an bank­anna og er enn að ger­ast í okk­ar þjóðfé­lagi. Við erum með regl­ur, en leyf­um okk­ur - það er eins og það sé í kúltúrn­um - að setja þær til hliðar.“

Stein­grím­ur Ari sagðist ekki vera að halda því fram að lög hefðu verið brot­in í tengsl­um við söl­una. Rík­is­end­ur­skoðun hefði staðfest að ráðherr­un­um hefði verið heim­ilt lög­um sam­kvæmt að víkja regl­um til hliðar.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert