Rekstrarafgangur Mosfellsbæjar af A-hluta, að undanskildum fjármagnsgjöldum, var 126 milljónir króna á síðasta ári. Fjármagnsgjöld voru rúmar 460 milljónir, þar af verðbætur og gengistap 314 milljónir og er því rekstrarhalli á A-hluta sem nemur um 322 milljónum á árinu 2009. Veltufé frá rekstri er jákvætt, að því er segir í tilkynningu.
Þá segir að rekstur sveitarfélagsins á árinu 2009 hafi gengið vel ef tekið sé tillit til
þess krefjandi efnahagsumhverfis sem menn búi við.
Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2009 var kynntur á 534. fundi bæjarstjórnar miðvikudaginn 21. apríl 2010 og honum vísað til seinni umræðu sem er fyrirhuguð er 5. maí.
„Starfsfólk Mosfellsbæjar hefur sýnt mikla ráðdeild í rekstri stofnana en hefur um leið staðið vörð um velferð og fjölskylduna í þeim áætlunum sem unnið hefur verið eftir. Útsvar í Mosfellsbæ er undir leyfilegu hámarki og gjaldskrár fyrir þjónustu lækkuðu að raunvirði á árinu. Er það liður í því markmiði Mosfellsbæjar að reyna að koma í veg fyrir að auknar álögur leggist á heimilin. Tekist hefur að stilla rekstur sveitarfélagsins af á móti tekjum með ásættanlegri rekstrarniðurstöðu A-hluta stofnana fyrir fjármagnsliði.
Niðurstaða úr ársreikningi er í samræmi við áætlun ársins. Gert hafði verið ráð fyrir halla í rekstri á árinu 2009 og að fullt jafnvægi verði í rekstri á árinu 2010. Í þriggja ára áætlun Mosfellsbæjar er hins vegar gert ráð fyrir því að hallinn verði unninn upp og bæjarsjóði verði skilað með hagnaði á árinu 2011.
Eiginfjárhlutfall hefur farið hækkandi jafnt og þétt á undanförnum árum. Mosfellsbær nýtur trausts á lánsmörkuðum og tók lán á hagstæðum kjörum fyrir stórum framkvæmdum á árinu 2009, svo sem byggingu nýs leik- og grunnskóla, Krikaskóla. Mosfellsbær er eitt af fáum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu þar sem íbúafjölgun var milli ára og því brýnt að halda áfram nauðsynlegri uppbyggingu sé þess kostur. Skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins nema samtals um 6,9 milljörðum en bókfært verðmæti eigna er 10,4 milljarðar og er eigið fé því 3,5 milljarðar.
Að meðtöldum B-hluta stofnunum var jákvæð rekstrarniðurstaða upp á 367 milljónir að undanskildum fjármannsliðum. Vaxtagjöld og gengistap var 652 milljónir og er niðurstaðan því neikvæð upp á 267 milljónir,“ segir ennfremur í tilkynningu.