Röskun á flugi til Grænlands

Fokker flugvél frá Flugfélagi Íslands við hlið Boeing 757 flugvélar …
Fokker flugvél frá Flugfélagi Íslands við hlið Boeing 757 flugvélar Icelandair. mbl.is

Öskuský í háloftunum frá Eyjafjallajökli hefur færst vestur til Grænlands síðustu daga og röskun orðið á flugi þangað. Um tíma leit út fyrir að flug Flugfélags Íslands til Kulusuk félli niður í dag en af því varð ekki. Félagið fylgist vel með þróun öskuskýsins næstu daga.

Að sögn Árna Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Flugfélags Íslands, hafði gosaskan áhrif á flug til Nuuk á vesturströndinni í gær. Öskuskýið færðist síðan norðar og um tíma var hætta á að flug félagsins til Kulusuk á austurströndinni félli niður. Flugfélag Íslands á næst flug til Kulusuk á laugardag og segir Árni að vel verði fylgst með þróuninni næstu daga.

Árni segir lágmarksröskun hafa orðið á innanlandsflugi félagsins síðustu daga vegna eldgossins. Þó hafi orðið að fella niður nokkrar ferðir til Vestmannaeyja og Egilsstaða og lítilsháttar tafir orðið á áætlun.

Félagið fylgist einnig vel með því hvort öskufall færist nær suðvesturhorni landsins, með þeirri hættu að Reykjavíkurflugvöllur lokist. Árni segir ekki miklar líkur á því, sem sakir standa, en ef loka þurfi vellinum sé hætt við að innanlandsflugið leggist alveg af um tíma þar sem langflestar leiðir liggi til og frá Reykjavík. Mögulegt sé að halda uppi flugi áfram til Grænlands og þá frá Akureyri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert