Um 150 manns mættu á íbúafund með almannavörnum, viðbragðsaðilum og fulltrúum frá Bjargráðasjóði sem fram fór í félagsheimilinu Hvolnum á Hvolsvelli í kvöld. Þar var farið yfir stöðu mála í tengslum við eldgosið í Eyjafjallajökli og gafst íbúum færi á að spyrja spurninga.
Að sögn lögreglu er hljóðið í íbúum ágætt. Það hafi létt yfir mönnum þegar það birti yfir jöklinum. „Það er aðeins farið að lifna yfir þessu. Fólk er farið að sjá sólina og fyllast bjartsýni,“ sagði lögreglumaður í samtali við mbl.is.
Aukinn órói mældist á jarðskjálftamælum við gosstöðvarnar í
Eyjafjallajökli síðdegis í dag. En að sögn jarðeðlisfræðinga er um litlar
breytingar að ræða. Ekkert bendi til þess að eldgosið sé að breytast.
Að sögn Veðurstofu Íslands má búast við öskufalli suður og vestur af eldstöðinni á morgun, en berst
líklega ekki langt frá eldstöðinni.
Haldnir voru íbúafundir í dag á Hellu og á Goðalandi í Fljótshlíð, með
yfirvöldum og almannavarnanefnd í héraði, ásamt dýralækni,
veðurfræðingi, jarðvísindamanni og fleiri sérfræðingum, voru fundirnir
vel sóttir.
Í fyrramálið verða áframhaldandi upplýsingafundir sérfræðinga kl. 8:00-9:00 í upplýsingamiðstöðvunum í Skógarhlíð og í Hvoli á Hvolsvelli.