Gerir hlé á ræktun og búskap

Þorvaldseyri í öskumekki.
Þorvaldseyri í öskumekki.

Ólafur Eggertsson á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum hefur ákveðið að gera hlé á ræktun og búskap um sinn í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru á Þorvaldseyri eftir gosið í Eyjafjallajökli. Segir Ólafur að í þessu felist ekki nein áform um að bregða búi og heldur ekki áform um að flytja frá Þorvaldseyri.

Í yfirlýsingu, sem Ólafur hefur sent frá sér, segir að  horfast verði í augu við staðreyndir og gefa jörðinni tækifæri til að jafna sig þegar þessu linnir. Ekki hafi aðeins orðið mikið öskufall heldur hafi aurflóð einnig ógnað öryggi staðarins.

„Eins og nú horfir er ekki réttlætanlegt að stunda ræktun svo sem  gras-, korn- og hveitirækt eins og við höfum gert. Miklar líkur eru á öskufoki ofan úr fjallinu á næstu misserum með tilheyrandi skaða á gróðri. Við höfum ekki í hyggju að lóga gripum eða senda í sláturhús en þurfum að huga að því að koma þeim fyrir annars staðar. Við þessar aðstæður, þegar búast má við að á löngum köflum verði ekki hægt að vera utandyra,  er hvorki hægt að ætla fólki eða búpeningi að rekinn sé búskapur á jörðinni," segir í yfirlýsingu Ólafs.

Þorvaldseyri hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar í rúmlega eitt hundrað ár. Árið 1906 eignaðist Ólafur Pálsson frá Svínhaga á Rangárvöllum jörðina. Sonur hans, Eggert Ólafsson tók við henni af honum og sonur Eggerts, Ólafur Eggertsson af föður sínum.

Á Þorvaldseyri búa nú hjónin, Ólafur Eggertsson og Guðný Valberg ásamt syni sínum Páli Eggerti Ólafssyni og tengdadóttur, Hönnu Láru Andrews. Sonur þeirra er Ólafur Pálsson, ársgamall. Ólafur og Guðný eiga einnig dæturnar Þuríði Völu, Ingu Júlíu og Sigríði.

Á Þorvaldseyri eru um 150 hektarar ræktaðs lands. Í heild er jörðin um 1000 hektarar. Á bænum eru um 60 mjólkandi kýr og 130 aðrir nautgripir.
Þar hefur verið stunduð kornrækt í 50 ár, hveitirækt og síðustu ár tilraunir með repjurækt til olíuframleiðslu. Þar hefur verið eigin raforkuframleiðsla og borhola með 66° heitu vatni til heimanota. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert