Gylfi: Jákvæð mynd frá AGS

Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Stóra myndin er sú að þjóðhagsstærðirnar eru flestar ef ekki allar betri en menn bjuggust við," segir Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, um skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um aðra endurskoðun efnahagsáætlunarinnar með Íslandi.

„Samdráttur landsframleiðslu var umtalsvert minni en menn gerðu ráð fyrir og munar þar þremur prósentustigum af landsframleiðslu. Líka að viðleitnin til að koma ríkisfjármálum á rétta kjöl er líka aðeins á undan áætlun. Það munar rúmu prósenti af landsframleiðslu þar. Þetta er auðvitað hvort tveggja jákvætt," bætir Gylfi við.

Viðskiptajöfnuðurinn sé líka mjög góður, útflutningur haldi sjó og rúmlega það, en innflutningur hafi minnkað mikið. ,,Svo það er mjög heilbrigður afgangur á viðskiptajöfnuði." Krónan hafi síðan róast mikið, þótt hún hafi ekki styrkst að neinu ráði, svo að helstu lykilstærðir séu allar í ágætu lagi.

AGS spáir 9,7% atvinnuleysi á þessu ári, 8,6% á því næsta en 3% árið 2014. Gylfi segist vona að þessi spá reynist of svartsýn. Innlendar spár hafi verið ívið bjartsýnni. Þessi þróun fari hins vegar eftir því hvernig hagkerfið í heild þróist.

„Þar er stærsti óvissuliðurinn fjárfesting. Ef fjárfestingar verða minni en gert er ráð fyrir, þá er hugsanlegt að þessi atvinnuleysisspá þeirra gangi eftir, en ef við náum að snúa þessum mikla samdrætti í fjárfestingu að einhverju leyti við ættum við að sjá að það verði ekki mikið hærra en það er núna," segir Gylfi. Þá minnki atvinnuleysið í sumar eins og alltaf, en fari svo ekki jafnhátt næsta vetur eins og það gerði núna í vetur.

Í skýrslu AGS segir að harðari stjórn á gjaldeyrishöftum hafi stutt við gjaldmiðilinn undanfarið. Áframhaldandi árvekni gegn sniðgöngu á höftunum sé nauðsynleg, þar á meðal vilji til þess að herða gjaldeyrishöftin ef það reynist nauðsynlegt

Aðspurður segir Gylfi helst ekki vilja herða höftin svo þau þrengi meira að. „En ef það koma í ljós einhverjar glufur sem menn eru að nota sér, sem ekki var ætlunin að væru til staðar. Þá þurfum við að loka þeim. Og auðvitað líka ef menn beinlínis brjóta lög og fara í gegnum höftin þannig, þá þarf að refsa mönnum fyrir það. En auðvitað er stefnan sú að höftunum verði síðan smám saman aflétt. Það hefur ekkert breyst en það er ekki búið að tímasetja það neitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka