Hlutur Björgólfs Thors metinn í iðnaðarnefnd

Athafnasvæði gagnavers Verne Holdings á Ásbrú í Reykjanesbæ
Athafnasvæði gagnavers Verne Holdings á Ásbrú í Reykjanesbæ

Iðnaðarnefnd Alþingis mun meta áhrif skýrslu rannsóknarnefndar og hlut Björgólfs Thors Björgólfssonar áður en frumvarp um þjónustusamning milli ríkisins og Verne holding verður afgreitt úr nefndinni. Starfsemi gagnavers Verne holding á Suðurnesjum strandar á frumvarpinu.

Rætt var um málefni Verne holding á Alþingi í dag. Jón Gunnarsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmenn Sjálfstæðisflokks, spurðu Skúla Helgason, formanns iðnaðarnefndar Alþingis, út í málið og hvað því liði. Jón hóf raunar ræðu sína á því að gagnrýna, að nefndin hafi ekki fundað síðan fyrir páska.

Skúli svaraði þeirri gagnrýni með því að tilkynna um fund iðnaðarnefndar á föstudag. "Það var sjónarmið meirihluta nefndarinnar, að okkur bæri skylda til að bíða eftir niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og sérstaklega meta hver hlutur Björgólfs Thors Björgólfssonar yrði í henni áður en málið yrði tekið út úr nefndinni. Nefndin mun nú meta áhrif skýrslunnar á framvindu þessa máls," sagði Skúli.

Eitt af því sem nefndin þarf að meta er það viðhorf sem fram hefur komið um eignarhlut Björgólfs Thors í Verne holding og hvort eðlilegt sé að stjórnvöld samþykki gjörning sem feli í sér fjárhagslega fyrirgreiðslu "fyrir einn þann einstakling sem lék stórt hlutverk í aðdraganda bankahrunsins og deilir ábyrgð á þeim hamförum," sagði Skúli en tók einnig fram að um væri að ræða verkefni sem feli í sér mikilverða og kærkomna viðbót við atvinnustafsemi á Suðurnesjum, enda hvergi hærra hlutfall atvinnulausra á landinu - um fimmtán prósent.

Bitbeinið í nefndinni er þjónustusamningur milli ríkisins og Verne holding um gagnaverið en hann á að skapa félaginu stöðugri grundvöll varðandi skattalega umgjörð, opinber gjöld o.s.frv. Samningurinn er talinn afar mikilvægur Verne holding þegar kemur að því að tryggja samninga við erlenda viðskiptavini.

Björgólfur Thor Björgólfsson
Björgólfur Thor Björgólfsson mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert