Kreppan grynnri en óttast var

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir, að vaxandi vísbendingar séu um að kreppan á Íslandi, þótt djúp sé, verði ekki eins alvarleg og búist hafði verið við og búast megi við að hagkerfið fari að vaxa á ný á þessu ári þótt samdráttur landsframleiðslu á árinu öllu sé áætlaður 3%. 

Þetta kemur fram í skýrslu, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur birt um aðra endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands. Í skýrslunni er birt hagvaxtarspá, sem gerir ráð fyrir 2,3% vexti á næsta ári, 2,4 vexti árið 2012, 2,6% hagvexti árið 2013 og 4% hagvexti árið 2014. 

Þá spáir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að verulega dragi úr atvinnuleysi á næstu árum. Áætlað er að það verði 9,7% á þessu ári, 8,6% á næsta ári en verði komið niður í 3% árið 2014. Þá verði verðbólga 3,8% á næsta ári en lækki áfram og verði 2,5% árið 2014. 

Í skýrslu sjóðsins segir, að sú stefna, sem lögð var í efnahagsáætlun Íslands, hafi stuðlað að þessu og að allar helstu kröfur í tengslum við aðra endurskoðun áætlunarinnar hafi verið uppfylltar. Enn sé búist við að íslenska hagkerfið byrji að vaxa á ný á þessu ári þótt miklar skuldir einkafyrirtækja og gjaldeyrishöftin hamli þeim vexti.

Fram kemur í skýrslunni, að íslensk stjórnvöld og starfsfólk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins séu sammála um að betri horfur í efnahagsmálum eigi að gera kleift að draga meira úr halla ríkissjóðs á þessu ári en áður var áformað. Þá þurfi að hraða endurskipulagningu skulda atvinnulífsins.

Í umfjöllun starfsfólks Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um Ísland segir m.a. að stöðugleiki í gengismálum sé mikilvægum til að hamla verðbólgu og mæta hagvaxtarmarkmiðum. Bætt eftirlit með gjaldeyrishöftunum hafi stutt við gengi krónunnar að undanförnu og halda þurfi slíku eftirliti áfram og hugsanlega herða reglur reynist það nauðsynlegt. Vegna óvissu um aðgang að alþjóðlegu lánsfé verði aukin áhersla lögð á að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans vegna óvissu um lánsfé. Í skýrslunni er áætlað að gjaldeyrisforðinn muni nema 854 milljörðum í lok ársins. 

Skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert