Samtök atvinnulífsins lýsa undrun sinni yfir óheppilegum yfirlýsingum Forseta Íslands 19. apríl sl. á BBC um væntanlegt Kötlugos. Segja samtökin, sem halda ársfund sinn í dag, að þessi yfirlýsing hafi skaðað íslenska ferðaþjónustu á erfiðum tímum þegar allir þurfi að hjálpast að við að styrkja ímynd landins sem áfangastaðar fyrir ferðamenn.
„Íslensk náttúra er heillandi aðdráttarafl en á stundum óblíð og óútreiknanleg og fjölbreytileiki hennar er það sem vekur athygli og áhuga þeirra sem til landsins koma. Mikilvægt er að setja íslenska náttúru í jákvætt ljós þrátt fyrir að hún lúti fyrst og fremst sínum eigin lögmálum. Það er mjög óheppilegt að forystumenn þjóðarinnar veki ótta í nágrannalöndum okkar um hættu af völdum íslenskranáttúruafla nema til þess sé sérstakt tilefni og þörf," segir í ályktun frá Samtökum atvinnulífsins.
Þá segir, að eðlilegt sé að benda Evrópuþjóðum á hættuna af afleiðingum Kötlugoss og nauðsyn þess að evrópsk stjórnvöld búi sig undir að þróa viðbrögð við slíku en að mati Samtaka atvinnulífsins hafi hvorki verið staður né stund til þess við umræður um núverandi gos í Eyjafjallajökli í almennum fréttaþætti BBC.
„Samtök atvinnulífsins hvetja forseta Íslands til þess að gera allt sem í hans valdi stendur til þess að draga úr þeim skaða sem yfirlýsing hans hefur valdið," segir síðan í ályktuninni.