„Það eru minni læti í gosinu í dag en í gær,“ sagði Björn Oddsson jarðfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. Hann var þá staddur um 2 kílómetra norðan við eldgíginn á toppi Eyjafjallajökuls nú laust eftir hádegið. Björn sagði svo virðast sem nú dragi úr gosinu.
Björn fór ásamt fleirum að eldgígnum á Eyjafjallajökli með TF-GNÁ, þyrlu Landhelgisgæslunnar. Uppi á Eyjafjallajökli er ákveðin norðanátt sem ber gosmökkinn til suðurs.
„Það er enn öflugt gos í gangi en aðalbreytingin er sú að það er að myndast gígur og minni strókavirkni, minni aska sem þeytist upp í loftið,“ sagði Björn. „Þetta er þróunin í gosinu. Það er minni blöndun vatns og kviku. Þær sprengingar sem við sjáum núna eru sennilega gassprengingar. Kvikan er seigfljótandi og gasið þenst út þegar það kemur upp og sprengir af sér kvikuna.“
Vel heyrðist í sprengingunum í gígnum en jörðin nötraði þó ekki. Björn sagði að sprengingarnar væru mjög kröftugar.
Frá sjónarhóli Björns norðan við eldstöðina benti allt til þess að aðallega gysi nú úr einum gíg. Sprengingarnar koma upp á einum stað. Virknin er mest nyrst í eldstöðinni. Við sprengingarnar þeytast hraunkleprar 50 til 100 metra upp í loftið.
Björn sagði að fyrr í dag hafi komið smá leki úr Gígjökli. Sennilega hafi losnað um vatnsstíflu í rásunum frá stóru hlaupunum á dögunum. Hann sagði það ekki neitt til að hafa áhyggjur af.