Nýtt eldgosaskeið að hefjast?

Eldgosið í Fimmvörðuhálsi var undanfari eldgossins í Eyjafjallajökli.
Eldgosið í Fimmvörðuhálsi var undanfari eldgossins í Eyjafjallajökli. Árni Sæberg

Íslenskir jarðvísindamenn telja að nú geti verið að hefjast ný hrina jarðelda hér á landi sem geti varað í um 60 ár og náð hámarki milli áranna 2030 og 2040. Þetta kemur fram í nýlegri grein í vísindatímaritinu New Scientist.

Tilefni greinarinnar eru þær truflanir sem orðið hafa á flugumferð vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Talið er að flugumferð yfir Norður-Atlantshafs geti orðið fyrir enn meiri truflunum af völdum íslenskra eldfjalla á komandi árum.

Vaxandi óróleiki í eldstöðvum hér á landi undanfarinn áratug er talinn benda til þess að vænta megi aukinnar virkni eldfjalla með mögulegum stórgosum. Vitnað er í Þorvald Þórðarson,  prófessor í jarðvísindum við Edinborgarháskóla, sem segir að svo virðist sem eldfjallavirkni hér á landi virðist koma í um 50 - 80 ára lotum.

Þá er rifjað upp að árið 1998 könnuðu Guðrún Larsen, jarðfræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, og samstarfsmenn hennar eldsumbrot hér á landi á 800 ára tímabili. Meðal annars rannsökuðu þau jarðlög, ískjarna og sögulegar heimildir. Af þeim mátti ráða að eldvirkni hér hafi gengið í bylgjum í aldanna rás.

Bylgjutopparnir virtust tengjast sterklega jarðskjálftahrinum sem urðu vegna spennu á flekamótum Norður-Atlantshafshryggjarins. Einnig gætu eldgosatímabilin tengst sveiflukenndri tilfærslu kviku úr möttli jarðar og þrýstingsbreytingum á yfirborðinu vegna bráðnunar jökla og jarðhitavirkni.

Guðrún og samstarfsmenn hennar sýndu fram á að í Vatnajökli, þar sem m.a. eru eldstöðvar á borð við Grímsvötn og Bárðarbungu, hafi orðið 6 - 11 eldgos á hverju 40 ára tímabili þegar eldvirknin var sem mest samanborið við mest þrjú eldgos á hverjum 40 árum tímabila lítillar virkni. Svipuð sveifla virtist gilda um önnur eldfjallasvæði á Íslandi.

Það er ekki einungis að eldgos verði tíðari í eldgosahrinum heldur virðast einnig verða kröftugri eldgos þegar hrinan stendur sem hæst. Mesu hamfaraeldgosin, á borð við eldgosið í Laka 1783 sem olli Móðuharðindunum þegar fjórðungur landsmanna dó og helmingur búsmalans féll, virðast hafa orðið þegar virknin var sem mest á Norður-Atlantshafshryggnum.

Þorvaldur segir að sé nýtt eldgosaskeið að hefjast aukist líkur á stórum eldgosum. Hann og félagar hans telja að næsta skeið mikillar eldvirkni á Íslandi sé að hefjast. Þeir telja að það geti varað í um 60 ár og náð hámarki á árunum frá 2030 til 2040.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert