Nýtt eldgosaskeið að hefjast?

Eldgosið í Fimmvörðuhálsi var undanfari eldgossins í Eyjafjallajökli.
Eldgosið í Fimmvörðuhálsi var undanfari eldgossins í Eyjafjallajökli. Árni Sæberg

Íslensk­ir jarðvís­inda­menn telja að nú geti verið að hefjast ný hrina jarðelda hér á landi sem geti varað í um 60 ár og náð há­marki milli ár­anna 2030 og 2040. Þetta kem­ur fram í ný­legri grein í vís­inda­tíma­rit­inu New Scient­ist.

Til­efni grein­ar­inn­ar eru þær trufl­an­ir sem orðið hafa á flug­um­ferð vegna eld­goss­ins í Eyja­fjalla­jökli. Talið er að flug­um­ferð yfir Norður-Atlants­hafs geti orðið fyr­ir enn meiri trufl­un­um af völd­um ís­lenskra eld­fjalla á kom­andi árum.

Vax­andi óró­leiki í eld­stöðvum hér á landi und­an­far­inn ára­tug er tal­inn benda til þess að vænta megi auk­inn­ar virkni eld­fjalla með mögu­leg­um stór­gos­um. Vitnað er í Þor­vald Þórðar­son,  pró­fess­or í jarðvís­ind­um við Ed­in­borg­ar­há­skóla, sem seg­ir að svo virðist sem eld­fjalla­virkni hér á landi virðist koma í um 50 - 80 ára lot­um.

Þá er rifjað upp að árið 1998 könnuðu Guðrún Lar­sen, jarðfræðing­ur við Jarðvís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands, og sam­starfs­menn henn­ar elds­um­brot hér á landi á 800 ára tíma­bili. Meðal ann­ars rann­sökuðu þau jarðlög, ískjarna og sögu­leg­ar heim­ild­ir. Af þeim mátti ráða að eld­virkni hér hafi gengið í bylgj­um í ald­anna rás.

Bylgjutopp­arn­ir virt­ust tengj­ast sterk­lega jarðskjálfta­hrin­um sem urðu vegna spennu á fleka­mót­um Norður-Atlants­hafs­hryggj­ar­ins. Einnig gætu eld­gosa­tíma­bil­in tengst sveiflu­kenndri til­færslu kviku úr möttli jarðar og þrýst­ings­breyt­ing­um á yf­ir­borðinu vegna bráðnun­ar jökla og jarðhita­virkni.

Guðrún og sam­starfs­menn henn­ar sýndu fram á að í Vatna­jökli, þar sem m.a. eru eld­stöðvar á borð við Grím­svötn og Bárðarbungu, hafi orðið 6 - 11 eld­gos á hverju 40 ára tíma­bili þegar eld­virkn­in var sem mest sam­an­borið við mest þrjú eld­gos á hverj­um 40 árum tíma­bila lít­ill­ar virkni. Svipuð sveifla virt­ist gilda um önn­ur eld­fjalla­svæði á Íslandi.

Það er ekki ein­ung­is að eld­gos verði tíðari í eld­gosa­hrin­um held­ur virðast einnig verða kröft­ugri eld­gos þegar hrin­an stend­ur sem hæst. Mesu ham­fara­eld­gos­in, á borð við eld­gosið í Laka 1783 sem olli Móðuharðind­un­um þegar fjórðung­ur lands­manna dó og helm­ing­ur bús­mal­ans féll, virðast hafa orðið þegar virkn­in var sem mest á Norður-Atlants­hafs­hryggn­um.

Þor­vald­ur seg­ir að sé nýtt eld­gosa­skeið að hefjast auk­ist lík­ur á stór­um eld­gos­um. Hann og fé­lag­ar hans telja að næsta skeið mik­ill­ar eld­virkni á Íslandi sé að hefjast. Þeir telja að það geti varað í um 60 ár og náð há­marki á ár­un­um frá 2030 til 2040.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert