Skattsvikahagkerfi þreifst í skjóli leyndar

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins, að það þurfi nýja siði, nýjan hugsunarhátt og ný vinnubrögð í bönkunum.

„Ofurlaun og bónusar eiga að heyra sögunni til, leynimakkið og ógagnsæ eignarhaldsfélög eiga að heyra sögunni til. Skattsvikahagkerfið sem þreifst í gömlu bönkunum í skjóli leyndarinnar á einnig að heyra sögunni til," sagði Jóhanna. „Skilanefndirnar hafa starfað á gráu svæði eða óljósu og þær eiga ekki að vera við líði deginum lengur en bein þörf er á. Pukur, óhóf og sjálftaka í fjármálakerfinu á að heyra sögunni til, aðeins þannig tekst okkur ætlunarverkið um að öðlast traust þjóðarinnar á fjámálakerfinu."

Jóhanna sagði, að vitnisburður rannsóknarskýrslunnar um háttalag helstu forkólfa atvinnulífsins sem var, hljóti að verða lagður til grundvallar með öðru þegar metið sé hvort viðkomandi aðilar séu verðir áframhaldandi samstarfs eða trausts.

„Róttækar breytingar á lagaumhverfi fjármálastofnana og stóreflt eftirlit Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka munu auðvitað breyta miklu en nýjir stjórnendur munu axla mikla ábyrgð í þessum efnum. Eitt af mikilvægustu verkefnum þeirra er að byggja upp traust þjóðarinnar til þessa nýja bankakerfis og til þess nýja atvinnulfís sem hér er að mótast," sagði Jóhanna meðal annars. 

Skera verður verulega niður

Hún sagði, að samhliða endurreisn bankanna hafi  það verið annað helsta nauðsynjamálið að ná tökum á skuldum ríkisins. Bætt skuldastaða hins opinbera hafi skilað þeim árangri að draga megi úr áætluðum samdrætti ríkisútgjalda miðað við fyrri viðmið.

„Engu að síður verður að skera verulega niður hjá hinu opinbera á næsta fjárlagaári. Ríkisstjórnin hefur þegar kynnt áform um 30-40% fækkun ríkisstofnana, sameiningu og einföldun í ríkisrekstri, samruna ráðuneyta og fækkun ráðherra. Rannsóknarskýrsla Alþingis bendir okkur á að smáar og vanburða einingar í stjórnkerfinu, sem margar fást við áþekk verkefni eru ekki líklegar til að skila tilætluðum árangri. Uppstokkunar og endurskoðunar er þörf. Sameiningar á ýmsum sviðum eru þegar komnar til framkvæmda og aðrar eru í umfjöllun á vettvangi Alþingis. Ljóst er að með slíkri hagræðingu má ná umtalsverðum sparnaði til frambúðar án þess að grundvallarþjónusta skerðist. 

Eitt atvinnuvegaráðuneyti er markmið hjá ríkisstjórninni og með slíkri sameiningu má styrkja og efla umhverfi atvinnuvega hér á landi. Það hafa allar atvinnugreinar á Íslandi þörf fyrir stefnumótun, rannsóknir, nýsköpun og þróun og um það á starfsemi nýs atvinnuvegaráðuneytis að snúast. Í því efni veit ég að þið eruð mér sammála en það er hins vegar að halda í liðna tíð að viðhalda ráðuneytum kringum sérhagsmuni einstakra atvinnugreina," sagði Jóhanna Sigurðardóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert