Fyrrverandi framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landsbanka Íslands var Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sýknaður af ákæru um fjárdrátt. Honum var gert að sök að hafa dregið sér 118 milljónir króna í október 2008.
Hann millifærði fjárhæðina af innlendum gjaldeyrisreikningi í eigu NBI Holding, félags á vegum bankans sem hann í tengslum við starf sitt var stjórnarmaður og hafði prókúru fyrir, yfir á eigin bankareikning. Daginn eftir millifærði hann fjárhæðina aftur yfir á annan bankareikning, sem einnig var í hans eigu. Hann neitaði að hafa gerst sekur um auðgunarbrot.
Fram kemur í dómi héraðsdóms að ekki hafi verið nægur grundvöllur til að hafna þeirri skýringu mannsins að hann hafi einungis ætlað að tryggja það að fé félagsins glataðist ekki við greiðsluþrot Landsbanka Íslands. Gegn neitun hafi því ekki tekist að sanna að hann hafi haft ásetning til auðgunar.
Skilanefnd var sett yfir Landsbankann að morgni 7. október. Síðar sama dag millifærði maðurinn féð. Ákvörðun um að nýi bankinn, sem stofnaður var, tæki yfir og ábyrgðist allar innstæður í Landsbanka Íslands hf. var ekki birt fyrr en 9. október, segir í dómi héraðdóms.
„Þegar litið er til allra aðstæðna og þess sem upplýst hefur verið um vitneskju manna og hugmyndir sem menn gerðu sér um stöðu innstæðueigenda, verður að meta það skiljanlegt að ákærði hefði nokkrar áhyggjur af stöðu NBI Holdings. Hafði hann réttmæta ástæðu til að gæta að innstæðu NBI Holdings og grípa til aðgerða sem hann teldi hæfilegar til að tryggja það að hún glataðist ekki. Er ekki í gögnum málsins eða atvikum í heild nægur grundvöllur til að hafna þeirri skýringu ákærða að hann hafi einungis ætlað að tryggja það að fé félagsins glataðist ekki við greiðsluþrot Landsbanka Íslands hf. Er því gegn neitun ákærða ósannað að hann hafi haft ásetning til auðgunar, sbr. 243. gr. almennra hegningarlaga. Verður því að sýkna hann af ákærunni,“ segir í dómi Hérðasdóms Reykjavíkur.