Áfram órói í gosstöðinni

Eldgosið í gær.
Eldgosið í gær. mbl.is/RAX

Lítil aska féll úr gosinu í Eyjafjallajökli í gær og gosvirkni var róleg á yfirborðinu. Áfram er órói í gosstöðinni. Hraun hleðst upp í gígnum og eykur þrýsting á gosrásina. Drunur sem heyrst hafi á svæðinu tengjast gassprengingum í gí,gnum.

Fram kom á upplýsingafundi í samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð, að yfirborð eldstöðvarinnar er rólegt og þar sem vatn virðist lítið hefur sprengivirkni farið minnkandi. Órói kemur áfram fram á mælum Veðurstofunnar sem þýðir að virkni er áfram í jarðskorpunni.

Að sögn Kristínar Þórðardóttir, staðgengils sýslumannsins á Hvolsvelli, eru 25 teymi með 120 félögum björgunarsveita Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, víðs vegar að af landinu að aðstoða bændur á um 20 bæjum undir Eyjafjöllum með ýmsum hætti. Eru bændur hvattir til að hafa samband við vettvangsstjórn á Hvolsvelli í síma 487 8302 ef þeir þurfa á aðstoð að halda.

Gert er ráð fyrir hægari austlægri átt og skýjuðu á Suðurlandi í dag. Á morgun er spáð suðaustlægri átt og að smám saman verði vaxandi vindur og öskumistur til norðvesturs frá eldstöðinni, sem geti jafnvel náð í örlitlum mæli til Reykjavíkur. Í efri loftlögum er í fyrstu spáð norðlægum og síðar austlægum áttum og að gosmökkur rísi ekki í meira en 6 kílómetra hæð.

Að sögn Flugstoða er lítið rask á innanlandsflugi í dag. Millilandaflug hefur gengið vel til og frá Keflavíkurflugvelli, er flug í Evrópu að færast í eðlilegt horf. Öskudreifingin nær nú til suðurhluta Grænlands, inn á Nýfundnaland og til Evrópu.  Vegna þessa eru nokkrir flugvellir í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Skotlandi lokaðir í dag.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, heimsótti í morgun Samhæfingarstöðina í Skógarhlíð og kynnti sér starfsemi stöðvarinnar.

Í tilefni sumardagsins fyrsta verður í dag opið hús og veisla á Heimalandi frá kl. 11-17. Verða veitingar í boði SS, Emmess ís og Ölgerðarinnar. Rangárvallasýsludeild Rauða Krossins sér um að halda utan um samkomuna líkt og undanfarna daga á Heimalandi. 

Tilkynning almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert