Missti iðulega sjónar á góðum gildum

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Kristinn

Jón Ásgeir Jóhannesson, kaupsýslumaður, skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann segist   iðulega hafa misst sjónar á góðum gildum og mörgu því sem mestu skiptir í lífinu. Hann segist enga fjármuni eiga í felum í aflandseyjum og heita íslensku þjóðinni því að gera allt sem í hans  valdi standi til að bæta fyrir mistök sín.

Jón Ásgeir segist í greininni hafa farið of geyst og færst of mikið í fang á of skömmum tíma. „Ég sé skýrt eigin yfirsjónir og dreg enga fjöður yfir þær þótt þungbærar séu," segir hann og nefnir m.a. að hann hefði átt að draga miklu hraðar saman seglin þegar óveðursskýin hrönnuðust upp síðari hluta ársins 2007.

„Verstu mistökin voru fjárfesting Baugs Group í desember það ár í FL Group, sem aftur átti hlutafé í Glitni banka. Þar réðist Baugur í illilega misheppnaða björgunaraðgerð sem að endingu bar fyrirtækið ofurliði."

Jón Ásgeir segir, að hann skuli fyrstur manna viðurkenna, hversu margt mátti betur fara í þessu ferli. „Í von um að geta bjargað fyrirtækjunum lagði ég allt undir í tilraunum sem þó reyndust alls ófullnægjandi, og ég sé glöggt að ég missti iðulega sjónar á góðum gildum og mörgu því sem mestu skiptir í lífinu. Því verður ekki með orðum lýst, hvernig mér líður vegna mistaka minna og afleiðinga þeirra. Þær yfirsjónir verða ekki aftur teknar. Við það verð ég að lifa."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert