„Ólýsanleg vonbrigði“

Séð inn Dýrafjörð.
Séð inn Dýrafjörð. www.mats.is

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum ekki hafa átt von á því að Dýrafjarðargöng yrðu slegin út af borðinu eins og fram kemur í tillögu að fjögurra ára samgönguáætlun, sem lögð var fram á Alþingi á þriðjudag.

„Ég á von á því að við eigum eftir að óska eftir skýringum. Auðvitað vitum við að það er lítið til skiptanna en maður átti ekki von á að þetta yrði alveg slegið af.“ Halldór segist ekki hafa vitað af því að þetta yrði niðurstaðan fyrr en tillagan var lögð fram á Alþingi í gær. Hann segist vart eiga til orð til að lýsa vonbrigðum sínum.

„Þetta er rúmlega 50 ára gamall vegur sem tengir saman byggðarlög á Vestfjörðum. Það er náttúrlega með ólíkindum að við skulum enn vera í þeirri stöðu að geta ekki keyrt á milli byggðarlaga og mikil vonbrigði að vita að við þurfum að bíða þetta mikið lengur.“

Það eina sem minnst er á varðandi Dýrafjarðargöng í tillögu að samgönguáætlun til ársins 2012 er að miðað verði við að áfram verði unnið að undirbúningi við Vaðlaheiðargöng, Dýrafjarðargöng og Norðfjarðargöng. Handbært fé til þessa liðar verður 12.091 milljónir króna árið 2010, 6.925 milljónir króna árið 2011 og 6.418 milljónir króna árið 2012.

„Þegar litið er til einstakra fjárveitinga hins vegar er ekki gert ráð fyrir fjármagni til ganganna og þær þúsund milljónir króna sem eyrnamerktar voru til jarðganga milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar í núgildandi vegáætlun horfnar og ekki nýttar til annarra framkvæmda á Vestfjörðum,“ segir Kristinn H. Gunnarsson, talsmaður baráttuhópsins Áfram vestur sem berst fyrir bættum samgöngum frá Bjarkalundi að Þingeyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert