Stjórn Sparisjóðsins í Keflavík hefur í dag sent Fjármálaeftirlitinu bréf með ósk um að það taki sjóðinn yfir, að því er kemur fram á vef Víkurfrétta. Viðskiptablaðið segir, að stjórn sjóðsins hafi þegar vikið og bráðabirgðastjórn tekið við. Reynt hefur verið að endurskipuleggja sjóðinn að undanförnu en það hefur ekki tekist.
Sjóðurinn hefur síðustu mánuði átt í viðræðum við tólf erlendar fjármálastofnanir, ríflega 50 innlenda kröfuhafar auk fulltrúa fjármálaráðuneytisins til að tryggja áframhaldandi starfsemi. Fram kemur á vef Víkurfrétta, að nokkrir lánadrottnar Sparisjóðsins hafi þegar neitað tilboði ríkisins um 80% niðurfellingu krafna í ljósi þess að ríkið sé ekki tilbúið að gefa út yfirlýsingu um algera sameiningu sparisjóðanna. Allir kröfuhafar þurfa að samþykkja tilboðið svo það nái fram að ganga.
Rekstur Sparisjóðsins hefur verið afar erfiður eftir bankahrunið, 17 milljarða tap 2008 og svipuð tala á árinu 2009. Ljóst er að sjóðurinn hefur þurft að afskrifa mikið af útlánum.
Fundað verður með starfsmönnum Sparisjóðsins í Keflavík í fyrramálið og þeim gerð grein fyrir stöðu mála. Þeir eru um 80 talsins. Starfsemi sparisjóðsins mun halda áfram í óbreyttri mynd sem stendur, öll útibú verða opin á morgun og innistæður sparifjáreigenda þar eru tryggðar í samræmi við yfirlýsingar stjórnvalda.