Segir ásakanir á hendur sér rangar

Steinunn Valdís Óskarsdóttir.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir. mbl.is/Guðmundur Rúnar

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir í grein á vef flokksins, að ásakanir um að hafa þegið mútufé frá útrásarvíkingum og af þeim sökum látið undir höfuð leggjast að beita sér gegn þeim, séu rangar. Hópur fólks hefur safnast saman fyrir utan heimili Steinunnar Valdísar undanfarin kvöld og krafist afsagnar hennar sem þingmanns.  

Í greininni fjallar Steinunn Valdís um ástæður þess, að hún þáði styrki frá fyrirtækjum vegna tveggja prófkjara sem hún tók þátt í árið 2006. Segir hún að tal um að þessir fjármunir hafi runnið í hennar eigin vasa sé helber lygi sem hún geti ekki setið undir. Reikningar og uppgjör liggi fyrir, öllum fylgiskjölum hafi verið skilað til skattsins fyrir 3 árum og uppgjörið sé öllum til skoðunar.

„Vissulega voru þetta háar upphæðir. Og við þær aðstæður sem nú ríkja eru þær svimandi háar. Það afsaka ég alls ekki. Þessi prófkjör fóru úr böndunum og sjálf mun ég aldrei taka þátt í slíkum aftur. Ég vil koma þessu á framfæri vegna þess að fyrir utan heimili mitt safnast saman fólk á hverju kvöldi og krefst afsagnar minnar vegna afar frjálslegra túlkana á tilurð, eðli og afleiðinga þessara upphæða.

Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að leggja á fjölskyldu, vini og nágranna í þágu starfa sinna. En mér er hins vegar annt um æru mína og samvisku. Afsögn á grundvelli ásakana um að hafa þegið mútufé frá útrásarvíkingum og af þeim sökum látið undir höfuð leggjast að beita mér gegn þeim sem skyldi myndu hvorugu hjálpa. Þær ásakanir eru einfaldlega rangar og breytir þá litlu hvort fáir eða margir hafa þær uppi," segir Steinunn Valdís.

 Grein Steinunnar Valdísar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert