Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var á ný í viðtali við fréttaþáttinn Newsnight í breska ríkissjónvarpinu BBC um eldgosið í gærkvöldi. Þar sagði Matt Frei, fréttamaður BBC, að þótt þjóðir gætu ekki borið ábyrgð á eldfjöllum sínum hlyti Íslendingum að vera létt yfir því að öskuskýið frá Eyjafjallajökli hefði minnkað.
Ólafur Ragnar sagði að þetta væri góðar fréttir fyrir Evrópubúa og allan heiminn og einnig fyrir Íslendinga þar sem mikið öskufall í suðurhluta landsins hefði valdið bændum þungum búsifjum. „Ég vona að eldfjallið róist smátt og smátt og við sjáum fram á betri tíma."
„En í gær varaðir þú við öðru eldfjalli í nágrenninu sem væri bæði stærra og ófrýnilegra og myndi gjósa meiri ösku út í andrúmsloftið. Þarf ekki að hafa áhyggjur af því lengur?" spurði Frei og vísaði þar til ummæla Ólafs Ragnars í fréttaþættinum Newsnight á mánudagskvöld um að gosið í Eyjafjallajökli væri aðeins létt æfing fyrir gos úr Kötlu sem búast mætti við á næstunni.
„Nei, sú hætta er ekki liðin hjá en það gætu liðið 5, 10 eða 15 ár; við vitum ekki hvenær það gerist frekar en við vissum hvenær eldgosið (í Eyjafjallajökli) yrði. En bæði vísindin og sagnfræðin segja okkur, að einhvern tímann í framtíðinni, kannski eftir nokkur ár eða áratugi, muni það gerast. Þess vegna hef ég hvatt flugfélög, flugvélaframleiðendur og flugmálayfirvöld í Evrópu og um allan heim til að endurskoða tæknina og vera viðbúin því þegar þetta gerist þannig að flugvélar verði betur búnar til að mæta slíku," sagði Ólafur Ragnar.
Frei spurði Ólaf Ragnar hvort hann teldi, að viðbrögðin við öskuskýinu hefðu verið yfirdrifin. Enginn getur svarað þeirri spurningu, sagði Ólafur Ragnar.
„Því við höfum lært það í þessu landi, að þegar eldgos verða þá getur enginn mannlegur máttur stöðvað slíkt. Við á Íslandi erum afar þakklát fyrir, að engan sakaði vegna eldgossins, hvorki hér né annarstaðar í heiminum. Það var vegna þess að bæði hér og í öðrum löndum var öryggið látið ganga fyrir," sagði Ólafur Ragnar.
Frei sagði að Íslendingar hefðu orðið fyrir ýmsum áföllum að undanförnu, fyrst fjármálahruninu og nú eldgosum. „Hvaða lærdóma dragið þið af þessu?" spurði hann.
„Ég held að helsti lærdómurinn sé hve bæði fjármálamarkaðurinn og eldfjöllin eru óútreiknanleg," svaraði Ólafur Ragnar. „En við höfum líka lært, að við verðum að búa okkur undir áföll, vera á varðbergi og læra að þekkja hættumerkin, hvort sem þau hættumerki eru á fjármálamarkaðinum, sem við lásum ekki nægilega vel frekar en ýmsar aðrar þjóðir, eða móður náttúru og eldfjöllunum... Bæði hrunið á fjármálamarkaðinum og eldgosið hafa kennt okkur, að þekking okkar er takmörkuð og við þurfum að bæta viðbúnað okkar og vera á verði. Þess vegna ráðlagði ég öðrum löndum að endurskoða viðbúnaðarkerfi sín einnig," sagði Ólafur Ragnar.