Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, hefur ákveðið að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem hann var dæmdur til að greiða lögfræðingi sem sótti um starf héraðsdóma miskabætur. Sjálfur vildi Árni ekki tjá sig um dóminn við blaðamann mbl.is, heldur vísaði á lögmann sinn.
Aðspurður hvort dómurinn hafi komið á óvart, segir Karl Axelsson, hrl og lögmaður Árna í málinu, að það að búið sé að áfrýja dóminum hljóti að sýna að svo hafi verið. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um dóminn. Benti hann á að málið væri enn í dómskerfinu og fyrr en því væri lokið yrðu ekki gefnar út frekari yfirlýsingar.
Árni var fyrr í dag ásamt íslenska ríkinu dæmdur til að greiða Guðmundi Kristjánssyni, lögfræðingi, 3,5 milljónir króna í miskabætur og 1 milljón króna í málskostnað fyrir að skipa Þorstein Davíðsson í embætti héraðsdómara á Norðurlandi eystra undir lok ársins 2007. Árni var þá settur dómsmálaráðherra.