Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Árna M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, og íslenska ríkið til að greiða Guðmundi Kristjánssyni, lögfræðingi, 3,5 milljónir króna í miskabætur og 1 milljón króna í málskostnað fyrir að skipa Þorstein Davíðsson í embætti héraðsdómara á Norðurlandi eystra undir lok ársins 2007. Árni skipaði í embættið sem settur dómsmálaráðherra.
Guðmundur sótti um embætti héraðsdómara haustið 2007 ásamt fjórum öðrum. Dómnefnd taldi, að allir umsækjendurnir væru hæfir. Þrír voru taldir mjög vel hæfir, þar á meðal Guðmundur, tveir taldir hæfir, þar á meðal Þorsteinn.
Guðmundur höfðaði skaðabótamál gegn Árna og ríkinu og krafðist 5 milljóna króna í miskabætur og einnig að viðurkennt yrði að Árni og ríkið væru skaðabótaskyld.
Í niðurstöðu héraðsdóms segir, að Árni hafi með saknæmum og ólögmætum hætti gengið á svig við niðurstöður lögboðinnar dómnefndar og skipað einstakling, sem flokkaður er tveimur hæfnisflokkum neðar en Guðmundur og með brot af starfsreynslu hans. Það sé ólögmæt meingerð á æru og persónu Guðmundar.
Í hnotskurn sé málið það, að með skipan þess sem fékk embættið sé gengið þvert gegn vilja löggjafans, þ.e. að styrkja sjálfstæði dómstólanna og auka traust almennings á því að dómarar séu óháðir handhöfum framkvæmdavaldsins. Þetta hafi verið gert án þess að sá er fékk embættið hafi haft uppi athugasemdir við niðurstöðu dómnefndarinnar.
Þá hafi það tekið Árna mjög stuttan tíma, að undirbúa veitingu embættisins. Hann aflaði ekki frekari upplýsinga eða gagna.
„Í ljósi menntunar sinnar og starfsreynslu verður að telja að hann hafi ekki faglega þekkingu á störfum dómstólanna. Við ákvörðun sína byggir hann á því að 4 ára starfsreynsla, sem aðstoðarmaður ráðherra, en lögfræðimenntun er ekki skilyrði fyrir því starfi, upphefji 35 ára starfsreynslu stefnanda sem öll tengist dómstólunum. Þessi háttsemi stefnda, Árna, er órafjarri skyldum hans sem veitingarvaldshafa við skipun í dómaraembætti og eðlilegt að stefnandi höfði mál á hendur ráðherra persónulega. Er það mat dómsins að stefndi, Árni, eigi persónulega að standa straum af tildæmdum miskabótum.
Hins vegar hefur stefndi, íslenska ríkið, byggt á því að það beri vinnuveitendaábyrgð á gerðum ráðherra. Dómurinn er bundinn af þeirri málsástæðu stefnda, íslenska ríkisins, og verður því stefndu gert að greiða stefnanda miskabætur óskipt," segir í niðurstöðu héraðsdóms.
Dómurinn sýknaði ríkið og Árna hins vegar af skaðabótakröfu Guðmundar á þeirri forsendu, að ósannað væri að hann hefði verið skipaður í embættið umfram hina
tvo umsækjendurna sem metnir voru mjög vel hæfir.