Nýr gígur kominn í ljós

Gígar Eyjafjallajökuls á radarmynd. Nyðri gígurinn á jöklunum er til …
Gígar Eyjafjallajökuls á radarmynd. Nyðri gígurinn á jöklunum er til hægri á myndinni og nýi gígurinn þar er líkastur kjafti á skrúflykli. Ljósm: Landhelgisgæslan

Nýr gígur kom í ljósi inni í nyrðri sigkatlinum á Eyjafjallajökli í mælingaflugi flugvélar Landhelgisgæslunnar TF-SIF yfir gosstöðvunum snemma í morgun. „Minni gígur inni í þeim sem fyrir er myndast oft þegar kraftur eldgoss dvínar,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur.

Gígurinn nýi sem sést á myndinni hér að ofan skagar fram í nyðri gíginn og er líkastur kjafti á skrúflykli. Gígjökull sem fellur niður að Markarfljóti liggur niður frá gígnum.

„Mér finnst líklegt að það versta í þessu gosi sér yfirstaðið. Venjulega er kraftur eldgosa mestur í upphafi en dvínar svo eins og gerst hefur í Eyjafjallajökli. Að öðru leyti er erfitt að segja til um framvindu gossins,“ segir Magnús Tumi. Talið er að um 20 til 30 tonn af gosefnum komi úr gíg Eyjafjallajökuls en krafturinn er nú aðeins 3 til 5% af því sem var fyrstu þrjá til fjóra fyrstu gosdagana.

Myndir úr flugvél Landhelgisgæslunnar hafa verið mjög þýðingarmiklar við athuganir á framvindu gossins og vísindamönnnum hefur verið mikill akkur í því að komast reglulega í flug með Gæslumönnum.

„Samstarfið við áhafnir á flugvél og þyrlum gæslunnar hefur verið alveg frábært. Flugvélin nýja hefur opnað mikla möguleika. Radarmyndirnar sem við höfum fengið úr tækjabúnaði hennar fást ekki úr neinni annari íslenskri flugvél,“ segir Magnús Tumi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert