Skipar starfshóp að nýju

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hefur skipað nýja fulltrúa í starfshóp sem ætlað er að móta og setja fram heildstæðar tillögur um breytingar og umbætur á skattkerfinu.

Starfshópurinn var fyrst skipaður 19. apríl og sátu þá í honum 6 karlar og 1 kona. Bent var á, að þetta uppfyllti ekki ákvæði jafnréttislaga um jöfn hlutföll kynja í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera og því óskaði Steingrímur eftir nýjum tilnefningum.

Starfshópinn skipa nú: Maríanna Jónasdóttir, fulltrúi fjármálaráðherra, sem jafnframt er formaður, Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, einnig tilnefndur af fjármálaráðherra, Hrannar B. Arnarsson, fulltrúi forsætisráðherra, Katrín Ólafsdóttir, fulltrúi félagsmálaráðherra, Arnar Þór Sveinsson, fulltrúi efnahags- og viðskiptaráðherra og Ingilín Kristmannsdóttir, fulltrúi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Indriði H. Þorláksson starfar með hópnum.

Þær Katrín og Ingilín koma inn í starfshópinn í stað Bolla Þórs Bollasonar og Hermanns Sæmundssonar. 

Starfshópnum er ætlað að skila áfangaskýrslu til fjármálaráðherra eigi síðar en 15. júlí nk. með helstu stefnumarkandi tillögum og tillögum um þær lagabreytingar sem hægt verði að leggja fram til afgreiðslu á haustþingi 2010. Skulu þær tillögur vera í samræmi við áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum og áætlanir um fjárlög fyrir árið 2011. Lokaskýrslu og heildartillögum skal skilað fyrir árslok 2010.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka