Þykkasta öskulag í byggð mældist norðan sundlaugarinnar á Seljavöllum í síðustu mælingu jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, að því er frem kemur á heimasíðu stofnunarinnar. Mældist öskulagið þar 5,5 cm. Askan er þykkari en 2 cm á um 5 km breiðu belti og liggur þykktarás öskulagsins austanvert við Lambfell, nánast beint í suður frá gígunum í toppi Eyjafjallajökuls.
Í byggð þynnist aska nokkuð hratt til beggja átta niður að 0,5 cm þykkt en
þynnri dreifar náðu vestur að Hvammi og austur yfir Mýrdalinn, að því er segir í frétt á heimasíðu stofnunarinnar.
„Öskulagið er lagskipt á því svæði sem skoðað var og skiptist í þrjú
greinileg lög. Efsta lagið er fíngerðast og yfirleitt þynnra en 0,5 cm.
Þetta lag rann saman í harða skán eftir að hafa blotnað og þornað
aftur. Hin lögin tvö, sem eru heldur grófari í korninu, verða ekki eins
hörð.“
Þá segir að askan sem féll sl. mánudag hafi verið töluvert grófari en sú sem féll sl. laugardag. Stærstu korn nýrri öskunnar séu um 0,5 cm í þvermál.