Vöruðu margoft við hættunni

Íslenskir flugumferðarstjórar hafa æft reglulega viðbrögð við afleiðingum eldgosa á …
Íslenskir flugumferðarstjórar hafa æft reglulega viðbrögð við afleiðingum eldgosa á flugumferð. Viðvaranir héðan virtust falla fyrir daufum eyrum. Myndin er úr myndasafni. Brynjar Gauti

Íslensk flugyfirvöld hafa margsinnis varað við hættu af eldgosum á Íslandi á alþjóðlega flugumferð, að því er Aftenposten greindi frá í gær. Þrátt fyrir það hafa evrópsk flugyfirvöld, stjórnmálamenn og flugfélög staðhæft aftur og aftur að enginn hafi verið viðbúinn því að eldgos hér á landi gæti haft svo víðtæk áhrif.

Aftenposten ræddi við Egil Þórðarson, flugumferðarstjóra, sem stýrt hefur æfingum þar sem reynt hefur verið að sjá fyrir og æfa viðbrögð við eldgosi hér á landi og afleiðingum þess á alþjóðlega flugumferð. Unnið hefur verið að verkefninu í áratug. Æfingarnar hafa farið fram fjórum sinnum á ári.

Egill segir í samtali við Aftenposten að æfingarnar hafi sýnt að eldgos hér á landi gæti haft alvarlegar afleiðingar. Staðbundnar æfingar hafi verið haldnar þriðja hvern mánuð og einnig hafi verið haldnar sameiginlegar æfingar með Bretum og Norðmönnum. 

Undanfarin tvö ár hefur Egill sent veðurspár til yfirvalda flugstjórnarmála, m.a. í Englandi og Noregi, til að sýna fram á hvaða áhrif eldgos á Íslandi hefðu haft þann tiltekna dag. 

Í blaði norskra flugmanna, Flygelederen, í desember 2009 var varað við yfirvofandi vandamáli fyrir flugumferð. Tere Dahlseng Eide, flugstjóri og ritstjóri, skrifaði þar sex síðna grein þar sem sagði m.a. að afleiðingar gætu orðið slæmar og að eldgos gæti valdið gríðarmiklum vanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert