Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, segir að fylgjast megi með því á GPS mælingum hvernig eldfjallið undir Eyjafjallajökli andar. Þegar kvika streymi inn í það þá þenjist það út en þegar gýs þá sígur það saman.
Harldur segir, að Sigrún Hreinsdóttir hafi fylgst með GPS mælistöðvum sem hafi verið settar upp af Veðurstofunni og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands umhverfis Eyjafjallajökul. Allar stöðvarnar hafi sýnt töluverðar hreyfingar á jarðskorpunni síðan í desemberlok, og endurspegli þær GPS hreyfingar innstreymi af hraunkviku frá möttli jarðar og ínní jarðskorpuna undir Eyjafjallajökli.
Strax í desember byrjaði Þorvaldseyri að færast til suðurs, þegar eldfjallið lyftist upp vegna innstreymis kviku. Hafði Þorvaldseyri færst um 60 mm til suðurs áður en gos byrjaði. Haraldur segir, að ekki hafi verið hægt að ráða frá þessum gögnum hvenær gos kynni að hefjast, eða hvort gos yrði.
Strax og gosið á Fimmvörðuhálsi hófst hinn 20, mars breyttist ferli á GPS mælinum. Fjallið þandist ekki lengur út heldur byrjaði að jafna sig um tíma. Fljólega byrjaði þó þenslan aftur og stóð yfir þegar gosið í toppgíg Eyjafjallajökuls hófst hinn 14. apríl.
Strax og sprengigosið byrjaði varð skyndileg breyting og fjallið stefndi nú hratt í upprunalegt horf. Segir Haraldu, að ef þessu haldi áfram, þá ætti fjallið að vera komið í jafnvægi aftur eftir eina viku eða svo.