Gosmökkur stendur nú upp frá gígnum í Eyjafjallajökli til suðvesturs upp í 4 km hæð. Gjóskufall er lítið og ekki hefur frést af öskufalli á láglendi. Gróflega áætlað er vatnsrennsli frá Gígjökli um 100 til 120 rúmmetrar á sekúndu.
Að sögn sérfræðinga Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands er nyrðri gígurinn á gosstöðvunum ennþá virkur. Þar er væg sprengivirkni með hraunslettum sem fara u.þ.b. 100 metram í loft upp. Norðan gígs hefur bráðnað u.þ.b. 300 metra löng geil og upp úr henni standa gufumekkir, einkum frá jöðrum. Þar er hraun að renna og stíga mekkirnir af þar sem hraunið snertir jökulísinn. Gosórói er svipaður og undanfarna daga.
Streymi kviku virðist hafa verið svipað undanfarna sólarhringa eða 20-40 tonn á sekúndu. Virkni gosmakkar fer hægt dvínandi. Hraunstreymi hefur að öllum líkindum hafist nærri hádegi á miðvikudag. Tímasetningin er byggð á því að þá hófst nokkuð samfellt vatnsrennsli niður Gígjökul, gufumyndun við norðurjaðar sigketils sást eftir hádegi þann dag úr þyrlu.
Engin merki eru um bráðnun eða vatnsrennsli til suðurs. Engin merki eru um að gosi sé að ljúka.