Félagsmenn í Blaðamannafélagi Íslands kjósa sér formann næstkomandi fimmtudag. Í framboði eru Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, sitjandi formaður, og Hjálmar Jónsson, fyrrverandi formaður og núverandi framkvæmdastjóri. Framboð Hjálmars kom mjög á óvart og hefur heldur betur hrist upp í umræðunni meðal félagsmanna.
Hjálmar segist ekki hafa íhugað framboðið lengi en um skeið hafi þó verið ágreiningur milli hans og Þóru Kristínar um stefnumörkun og starfsaðferðir BÍ. Ofan á ágreininginn hafi Hjálmar svo orðið var við óánægju félagsmanna og fengið áskoranir um að gefa kost á sér. „Ég hef starfað lengi innan félagsins og taldi raunar að ég væri búinn að gegna mínu hlutverki sem formaður [insk. blms. frá árinu 1998 til 2003]. En í ljósi þeirra áskorana sem ég fékk og þess, að ég tel félagið hafa borið af leið undanfarið taldi ég nauðsynlegt að gefa kost á mér. Ef ekki til annars en að almennir félagar geti kveðið upp sinn lýðræðislega úrskurð.“
Þóra Kristín segir starfið ekki hafa áhrif á störf sín innan BÍ. „En það er ágætt að sú umræða komi upp. Ég vil starfa fyrir alla félagsmenn Blaðamannafélagsins og skorast ekki undan því. Ef ég væri í framboði fyrir stjórnmálaflokk eða virkur þátttakandi í stjórnmálastarfi þá hefði það áhrif á mitt starf innan BÍ en það að hafa skoðanir á þjóðmálum og stýra vinstri sinnuðum umræðuvettvangi hefur það ekki,“ segir hún og bætir við að hún sé ekki flokksbundin í VG.
Hvað viðkemur ágreining milli Hjálmars og hennar segir Þóra hann vera vegna breytinga sem hún vill gera á skipulagi félagsins. „Það er að skerpa skilin milli framkvæmdastjórastarfsins og formennskunnar og að stjórnin sé virkari og upplýsingar til að mynda um fjárhag og útgjöld félagsins séu uppi á borðum.“