Framsóknarmenn líta fram á við

Frá miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í dag.
Frá miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, byrjar fundaherferð um landið í næstu viku til að kynna framtíðarsýn flokksins og  hvernig megi hefja uppbyggingu. Framsóknarflokkurinn vinnur nú að setningu siðareglna og gagngerri endurskoðun á flokksstarfinu.

Vorfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins var haldinn í dag. Sigmundur sagði að fundurinn hafi verið fjölsóttari en menn þorðu að vona í ljósi þess að ekkert var flogið innanlands í dag. 

„Það var samt mjög góð mæting. Það var mikið talað um þau mál sem hafa verið efst á baugi en mér fannst nánast allir vera á því að nú sé orðið tímabært að horfa einnig til framtíðar. Það var meginstefið á fundinum.“

Mikið var fjallað um drög að siðareglum sem kynnt voru í dag og samin voru í framhaldi af flokksþingi Framsóknarflokksins í fyrra.  Stefnt er að því að samþykkja siðareglurnar á flokksþingi næsta ár. Kapp var lagt á að leggja drögin fram fyrir sveitarstjórnarkosningarnar svo hægt yrði að byrja að vinna eftir þeim.

Iðrunar gætti í ræðu Sigmundar í dag. Hvað varðaði  þenslu fjármálakerfisins sagði hann m.a. að flokkurinn hefðu átt að „sporna við geggjuninni“ með gagnrýni og aðhaldi. „Fyrir andvaraleysi og mistök flokksins má biðjast margfaldlega afsökunar,“ sagði Sigmundur. En hvernig ætlar flokkurinn að bera ávöxt samboðinn iðruninni?

„Við erum ekki að byrja á þessu. Á sínum tíma vildu menn ekki bíða eftir rannsókn heldur fóru strax í að hefja uppgjörið. Hluti af því eru siðareglurnar.

Í dag var einnig ákveðið að fara yfir öll lög flokksins, uppbyggingu hans og starfshætti, til þess að reyna að laga hann að þeim breytingum sem þurfa að verða í samfélaginu öllu. Þannig að í flokksstarfinu getum við orðið fyrirmynd fyrir samfélagið í heild,“ sagði Sigmundur.

Hópurinn sem vinnur að endurskoðuninni á einnig að leita leiða til að tryggja góðan aðgang almennra flokksmanna að kjörnum fulltrúum og lýðræðislega umræðu. Þegar hefur verið stofnuð siðanefnd í flokknum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka