Gjörbreyting við Gígjökul

Gríðarlegar breytingar hafa orðið framan við Gígjökul eftir jökulhlaupin úr …
Gríðarlegar breytingar hafa orðið framan við Gígjökul eftir jökulhlaupin úr Eyjafjallaljökli. Ivar Örn Benediktsson

Gríðarlegar breytingar urðu framan við Gígjökul eftir jökulhlaupin sem komu frá eldgosinu í Eyjafjallajökli. Lónið framan við Gígjökul er nú horfið. Mjög gróflega er áætlað að í lónstæðinu einu og sér séu um tíu milljónir rúmmetra af efni sem kom með hlaupunum úr gígnum.

Ívar Örn Benediktsson, jarðfræðingur, var í hópi vísindamanna  sem könnuðu áhrif jökulhlaupa við Gígjökul á mánudaginn var. Ívar sagði að áætluð tala um magn gosefna sem sitja eftir í lónstæðinu sé mjög gróflega áætluð en ljóst sé að magn sets sem barst þarna niður sé gríðarmikið.

Allt að tíu metra þykk setlög

Allt að tiu metra þykk setlög á 100-200 metra breiðu belti eru nú komin ofan á jökulaurana sem voru fyrir framan Gígjökul. Ívar sagði eftir að áætla hve mikið af seti liggi á Markarfljótsaurum. Fínasta efnið barst með hlaupvatninu út í sjó. Á gervihnattamyndum sást hvernig set litaði hafið út fyrir Vestmannaeyjar.

Ívar sagði að af jökulseti að vera þá sé efnið úr Eyjafjallajökli yfirleitt fremur fínkornótt. Það sé nánast allt komið úr gígnum fyrir ofan og sé að mestu leyti gjóska. Setið er blandað bergbrotum sem brotnað hafa úr undirlagi jökulsins. Stór björg sem rofnað hafa úr móbergsklettum vestan við jökultunguna eru nú grafin í set framan við jökulinn.

Athuganir vísindamannanna sýndu að fyrstu tvö jökulhlaupin fylltu lónið framan við Gígjökul og báru með sér mikið set. Hæðarmælingar sýna að efstu flóðmörk eru 13 metrum ofan við núverandi farveg árinnar fremst í lónstæðinu. Hæðarmunur á yfirborði gamla lónsins og á núverandi farvegi er allt að átta metrar. Yfirborð lónsins hækkaði um fimm metra  þegar hlaupvatnið var á leið út í gegnum það.

Varasamt yfirferðar næstu árin

Þykkt krapablandað set er nú við jökulsporðinn. Talið er að það muni lækka þegar krapinn bráðnar. Ívar taldi ekki ólíklegt að fok úr setinu muni aukast þegar krapinn bráðnar og vatnið í þvi gufar upp. 

Vísindamennirnir vara við því að svæðið framan við Gígjökul geti orðið mjög varasamt yfirferðar á næstu árum, á hvaða árstíma sem er, vegna vatns og sandbleytu. Þá er fólki bent á að hætta á flóðum verði til staðar á meðan gýs í Eyjafjallajökli.

Á gervihnattamynd NASA frá 21. apríl ssésg hvernig set úr …
Á gervihnattamynd NASA frá 21. apríl ssésg hvernig set úr jökulhlaupunum litar sjóinn við Suðurströndina og út fyrir Vestmannaeyjar. earthobservatory.nasa.gov
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert