Matthildur Haraldsdóttir er laus úr öndunarvél eftir flókna og viðamikla skurðaðgerð í München í Þýskalandi í liðinni viku. Þetta var önnur aðgerðin af þremur sem hún þarf að fara í vegna sjaldgæfs æða- og hjartagalla en stúlkan er aðeins um fjögurra og hálfs mánaðar gömul.
„Aðgerðin gekk mjög vel,“ segir Haraldur Ægir Guðmundsson, faðir stúlkunnar. „Skurðlæknarnir voru ánægðir með viðbrögð líkama hennar og sína vinnu.“
Foreldrar stúlkunnar, Haraldur og Harpa Þorvaldsdóttir, söngnemi, eru með dóttur sinni á sjúkrahúsinu í München, en móðir Haraldar er hjá Halldóru Björgu, eldri dóttur þeirra, í Salsburg í Austurríki, þar sem sú stutta gengur í skóla. Þær komu til München um liðna helgi og fjölskyldan sameinast aftur á spítalanum um þessa helgi.
Haraldur segir að veittur stuðningur hafi verið ómetanlegur. Hann hafi gert foreldrunum mögulegt að vera saman hjá dótturinni á spítalanum og þeim veiti ekki af að hafa stuðning hvort af öðru í þessum erfiðu aðstæðum.