Á færeyskri menningarhátíð á Kjarvalsstöðum í Reykjavík í dag var Ólafur Halldórsson, handritafræðingur, heiðraður sérstaklega fyrir starf í þágu menningartengsla frændþjóðanna tveggja, Færeyinga og Íslendinga.
Ólafur, sem varð níræður þann 18. apríl sl., hefur um áratugaskeið unnið að rannsóknum á handritum, textum og útgáfum á fornsögum. Hann nam íslensk fræði við Háskóla Íslands og dvaldi síðar við fræðistörf á Árnasafni í Kaupmannahöfn um árabil og var einnig sendikennari þar. Árið 1963 varð hann sérfræðingur á Handritastofnun Íslands, sem nú heitir Stofnun Árna Magnússonar.
Ólafur hefur fengist við rannsóknir á rithöndum í handritum og textaútgáfum, m.a. við útgáfur á Færeyinga sögu og kynningu á henni í Færeyjum og á Íslandi. Að lokinni afhendingu hélt Ólafur fyrirlestur um Færeyingasögu í einum af sölum safnins.
Um 500 manns sóttu færeysku menningarhátíðina í dag.