Ökumaður fékk sex mánaða fangelsisdóm í Héraðsdómi Suðurlands þann 21. apríl s.l. Kæruna fékk hann fyrir að keyra próflaus og að hafa framvísað í blekkingarskyni ökuskírteini, sem búið var að svipta hann. Í ökuferilsskrá mannsins eru skráð 185 umferðarlagabrot frá 1. júní 1995 til 1. apríl 2010.
Í dómi Héraðsdóms Suðurlands kemur fram að maðurinn hafi verið sviptur ökurétti í eitt ár frá 12. júlí 2009 til 12. júlí 2010. Lögreglan á Selfossi segir í frétt sinni að þegar maðurinn var sviptur ökuskírteininu á sínum tíma hafi hann sagst vera búinn að týna skírteininu.
Maðurinn virðist hafa fundið skírteinið aftur því þegar lögreglan hugðist kanna ökuréttindi hans á Þorlákshafnarvegi 19. mars s.l. framvísaði hann ökuskírteininu.
Maðurinn játaði brot sín greiðlega. Hann bar sér til málsbóta að hann hefði verið að redda íbúð í Reykjavík fyrir fyrrverandi sambýliskonu sína.
Í dóminum kemur fram að manninum hafi þrettán sinnum verð gerð refsing fyrir margvísleg brot afrá árinu 2001. Um er að ræða fjöldann allan af umferðarlagabrotum og brotum gegn almennum hegningarlögum.
Honum var nú refsað í sjöunda sinn frá árinu 2003 fyrir að aka próflaus. Þá var honum refsað í þriðja sinn fyrir brot gegn 1. málsgrein 157. grein almennra hegningarlaga sem er svohljóðandi:
„Noti maður ófalsað skjal svo sem það varðaði annan mann en þann, sem það á við, eða með öðrum hætti gagnstætt því, sem til var ætlast, og þetta er gert til þess að blekkja með því í lögskiptum, þá varðar það sektum …1) eða fangelsi allt að 6 mánuðum.“
Samkvæmt ökuferilsskrá eru skráð brot mannsins, þar sem vátryggingaskylda er vanrækt, níu talsins.
Maðurinn var einnig ákærður og dæmdur nú fyrir að hafa vanrækt vátryggingaskyldu en bíll hans var ótryggður þegar lögregla kom að honum á Selfossi 18. september s.l. og klippti númerin af bílnum.
„Samkvæmt ökuferilskrá ákærða, sem lögð var fram í málinu, eru skráð eitt hundrað áttatíu og fimm umferðarlagabrot af ýmsum toga á ákærða frá 1. júní 1995 til 1. apríl 2010. Af þessu er ljóst að ákærði virðir að vettugi þær reglur sem ökumönnum er skylt að hlíta við akstur ökutækja. Þá hefur ákærða margoft verið gerð refsing fyrir ýmis hegningarlagabrot,“ segir m.a. í dóminum.
Sá dæmdi var fyrst sviptur ökurétti með dómi í desember 2002. Hann hefur samtals verið sviptur ökuréttindum í 31 mánuð með fimm dómum. Hann hafði fyrir síðasta dóm sex sinnum fengið refsingu fyrir að aka án ökuréttinda, samtals fyrir þrettán slík brot.
„Með vísan til brotaferils ákærða þykir einsýnt að það skipti hann litlu hvort hann hafi ökuréttindi eða ekki,“ segir í dóminum.
Ákærði var dæmdur í sex mánaða fangelsi, hann var sviptur ökurétti í eitt ár frá 12. júlí 2010 að telja og honum var gert að greiða allan sakarkostnað, samtals 90.209 krónur.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.