Brýnt að leysa vanda stofnfjáreigenda

Fallnir sparisjóðir. Stofnfé þeirra þurrkaðist út.
Fallnir sparisjóðir. Stofnfé þeirra þurrkaðist út.

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í dag að brýnt væri að reyna að leysa vanda þeirra fjölmörgu, sem á árunum 2007 og 2008 keyptu stofnfé í sparisjóðum þegar sparisjóðirnir gáfu út nýtt stofnfé til undirbúnings hlutafélagavæðingu. 

Gylfi flutti í dag á Alþingi munnlega skýrslu um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðakerfisins. Sagði hann m.a., að fjöldi manna hefði keypt þetta nýja stofnfé og margir tekið veruleg lán til kaupanna. Stofnfé þessa fólks hefði nú gufað upp að mestu eða öllu leyti. Vandi þessa fólks sé tilfinnanlegur og sambærilegur vanda þeirra, sem keyptu hlutafé í bönkunum og öðrum skráðum félögum  og sem nú væri verðlaust.

Sagði Gylfi, að á annað þúsund milljarða hefði tapast þegar bankarnir féllu haustið 2008 en þær fjárfestingar hefðu að miklu leyti verið fjármagnaðar með lánum. 

„Vitaskuld er ekki hægt að gera upp á milli þeirra sem lenda í vanda vegna fjárfestinga sem þessarara en það er brýnt að unnið sé úr þessari stöðu sem fyrst, einkum með samningum lánardrottna og lánþega sem gera hinum  fjölmörgu fjölskyldum kleift, að ná aftur tökum á fjármálum sínum," sagði Gylfi. 

Hann sagði, að þótt hið endurreista sparisjóðakerfi verði mun minna en það sem hrundi mun það gegna mikilvægu hlutverki í íslenska hagkerfinu og tryggja aðgang fólks að eðlilegri fjármálaþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert