Ölvaður ökumaður skapaði mikla hættu við gjaldskýli Spalar við Hvalfjarðargöng á sumardaginn fyrsta. Ökumaður jeppa ók á um 70 km hraða, að því er talið er, og keyrði á grind í sverum rörum sem fest er með átta stálboltum. Grindin rifnaði upp og radar þeyttist fram fyrir bíl við gjaldskýlið.
Atvikið er sýnt á myndbandi á heimasíðu Spalar. Þar segir að starfsmönnum í gjaldskýlinu hafi brugðið verulega við ákeyrsluna.
„Þeim flaug helst í hug að einhverjar náttúruhamfarir skýrðu hávaðann og titringinn sem áreksturinn skapaði. Nærtækari skýring fékkst hins vegar fljótt og reyndar þótti með nokkrum ólíkindum að ökumaðurinn skyldi ekki missa stjórnina á bílnum þegar hann hreinsaði burtu grindina og radarinn á hraðferð inn í sumarið - hraðferð sem allt eins hefði getað verið inn í sjálfa eilifðina fyrir ökumanninn sjálfan og aðra vegfarendur,“ segir í frétt Spalar
Starfsmenn Spalar gerðu lögreglunni viðvart og stöðvaði hún ökumanninn utan við Borgarnes. Hann reyndist vera drukkinn.
Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúi Umferðarstofu, vildi í tilefni af meðfylgjandi myndbandi minna fólk á að viti það til þess að einhver ætli að setjast undir stýri undir áhrifum áfengis eða vímuefna að reyna þá að koma í veg fyrir það með góðu.
„Ef það tekst ekki að sýna þá umhyggju sína fyrir viðkomandi með því hreinlega að láta lögreglu vita áður en viðkomandi fer af stað. Það getur verið síðasta úrræðið að láta vita í síma 112 að einhver undir áhrifum ætli að fara af stað,“ sagði Einar.